Breytt bloggsíða - www.steinarb.net

Ég hef fært mig um set og hvet þig til að kíkja á nýju síðuna mína:

 

www.steinarb.net


Eftirfarandi beiðni var send á allar matvöruverslanir á Íslandi

Ágæti framkvæmdastjóri

Eins og þú væntanlega veist þá herjar á hóp Íslendinga faraldur, svokallaður offitufaraldur. Sem betur fer glíma ekki allir við þá erfiðleika sem fylgja því erfiða ástandi sem offita er a.m.k. fyrir flesta. Offitunni fylgir oft mikil vanlíðan, bæði andleg og líkamleg.

Að undanförnu hefur mikil umræða átt sér stað um ástæður þess að svona er komið fyrir mörgum. Sitt sýnist hverjum en flestum ber saman um að ábyrgðin sé hjá neytendum, stjórnvöldum og fyrirtækjum sem framleiða og markaðssetja matvæli. Ég hef tekið eftir því í starfi mínu sem næringarfræðingur, en ég held fjölda fyrirlestra og veiti einnig einstaklingsráðgjöf, að hávær krafa er að mótast hjá almenningi um að fyrirtæki sem framleiða og markaðssetja matvæli axli ábyrgð á neyslumynstri Íslendinga og aðstoði neytendur við að velja matvæli við hæfi og sem henta t.d. ákveðnum aldurshópum.

Í þínum verslunum eru seldir orkudrykkir. Orkudrykkir eru t.d. Red Bull, Euroshopper Energy Drink, Monster, Burn, Magic, Orka, Cult ofl. ofl. tegundir. Oftast eru þessir drykkir í 250 ml umbúðum en æ algengara er að finna 500 ml dósir og flöskur og nú síðast bættust við 1000 ml dósir, en þá stærð er ekki endilega að finna í þínum verslunum. Orkudrykkir þessir innihalda umtalsvert magn af koffíni en auk þess er í flestum þeirra mikið magn af viðbættum sykri.

Aukaverkanir vegna koffínneyslu eru margvíslegar. Efnið er örvandi og eykur því hjartslátt og blóðþrýsting en aðrar þekktar aukaverkanir eru breytingar í hegðun s.s. óróleiki, skapstyggð, einbeitingarleysi og ógleði. Mikilvægt er að muna að áhrif koffíns á smærri líkama eru meiri en á stærri líkama og eru áhrif efnisins oftast mæld á hvert kg. líkamsþyngdar. Börn eru því sérstaklega viðkvæm gagnvart koffíni.  Auk þess er taugakerfi barna ekki fullþroskað og geta áhrifin því orðið verulega neikvæð sé koffíns neytt.

Ekki þarf skv. reglum um merkingar að merkja orkudrykki að öðru leyti en kveðið er á um í almennum reglum um merkingar að því undanskyldu að þegar magn koffíns er meira en 150 mg í 1000 ml af drykk þá er skylda að merkja að varan innihaldi mikið magn af koffíni.

Mikilvægt er að hafa í huga að börn eru hópur einstaklinga sem þarfnast sérstakrar athygli og ummönnunar umfram fullorðna. Til dæmis er kveðið á um í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að börn séu ekki sett í aðstöðu og aðstæður sem ekki eru til hæfis þeirra aldri. Barnasáttmálinn tilgreinir einnig orðrétt:  

„.....að börn séu hópur sem þarfnist sérstakrar verndar umfram hina fullorðnu."

Á Íslandi telst einstaklingur vera barn þar til hann nær 18 ára aldri en þá öðlast einstaklingur flest þau réttindi og ber allar þær skyldur sem fullorðinn hefur.

Nokkrar matvælaverslanir hafa tekið upp á því að merkja staði þar sem orkudrykkir eru til sýnis og sölu með varnaðarorðum um að þessara drykkja skuli ekki neyta sé einstaklingurinn yngri en 15 ára. Mikilvægt er að það sé ekki gerður greinarmunur á 15 ára einstaklingi annars vegar og 14 ára einstaklingi hinsvegar; báðir eru einstaklingarnir börn skv. íslenskum lögum.

Bréf þetta er skrifað til þín í þeirri von að þú hjálpir íslenskum neytendum að velja vöru sem hentar hverjum og einum og þá sérstaklega þegar um er að ræða viðkvæma hópa. Börnin okkar tilheyra viðkvæmum hópi og ég yrði afar þakklátur, sem foreldri tveggja barna, ef þú sæir þér fært að merkja alla þá staði í öllum þínum verslunum þar sem orkudrykkir eru seldir.

Staðsetninguna þar sem orkudrykkir eru seldir mætti merkja með eftirfarandi leiðbeinandi orðum:

"Ekki er æskilegt að börn yngri en 18 ára neyti orkudrykkja."

Oft er það þannig að hvorki foreldrar né börn vita að orkudrykkir eru ekki æskilegir þegar kemur að neyslu barna yngri en 18 ára en áhrif frá koffíni eru oftast meiri og öflugri þegar börn neyta þeirra en þegar þessara drykkja er neytt af fullorðnum. Því er mikilvægt að skilaboðin til allra séu skýr.

Evrópusambandið hefur gefið út að ekki sé æskilegt að orkudrykkja eða annarra drykkja með miklu magni af koffíni sé neytt af börnum. Matvælastofnun tekur undir þau orð.

Ég vona að þú takir vel í bón mína.

Með virðingu og von um skjót og jákvæð viðbrögð,
Steinar B. Aðalbjörnsson
foreldri og næringarfræðingur
858-5111, naering@hotmail.com

P.s.: ég hef nú þegar fengið svör frá nokkrum framkvæmdastjórum og hafa viðbrögð þeirra verið mjög jákvæð. Vonandi fylgja breytingar í kjölfarið enda trúi ég því að þetta sé af hinu góða, líka fyrir fyrirtækin sjálf.


Af hverju ætti ekki að D-vítamínbæta léttmjólk?

Samkvæmt niðurstöðum landskönnunar á mataræði er ljóst að Íslendingar eru ekki að ná sér í hæfilega mikið magn af D-vítamíni. Til þess er neysla á feitum fiski og annarri D-vítamínríkri fæðu of lítil. Auk þess er okkar ástkæra land staðsett svo norðarlega á hnattkringlunni að við njótum sólargeisla einungis stuttan tíma á hverju ári. Það er aðeins yfir hásumarið sem við getum reiknað með að líkaminn búi til D-vítamín í einhverju magni fyrir tilstuðlan sólageislanna ylhýru.

Embætti landlæknis hefur bent á að bæta þurfi aðgengi Íslendinga að D-vítamínríkri fæðu og er einn þátturinn í því að þjóðin borði meira af fiski. Laufey Steingrímsdóttir næringarfræðingur, sem hefur verið einn ötulasti baráttumaður fyrir aukinni neyslu Íslendinga á þessu mikilvæga vítamíni, hefur oftar en einu sinni viðrað þá hugmynd að hækka þurfi ráðlagðan dagskammt (RDS) fyrir D-vítamín. Mikil umræða hefur átt sér stað um D-vítamín og skort sem gert hefur vart við sig hjá þjóðinni. Hlutverk D-vítamíns er m.a. að aðstoða líkamann við að vinna kalk úr fæðunni og hefur vítamínið þar með bein jákvæð áhrif á beinheilsu.

Allir eru sammála um að bæta þurfi aðgengi að D-vítamíni en hvort rétt sé að ráðleggja þjóðinni að neyta lýsis daglega, en hafi lýsi ekki verið hreinsað af D-vítamíni er það ríkur D-vítamíngjafi, eða láta aðrar aðferðir duga verður að koma í ljós. Persónulega finnst mér lýsisneysla vera mjög góð leið til að ná í D-vítamín í ákjósanlegu magni en auk þess eru í lýsi töluvert magn af omega-3 fitusýrum en þær eru taldar geta haft jákvæð áhrif á tíðni hjarta- og æðasjúkdóma sé þeirra neytt í skynsamlegu magni.

En hvernig er hægt að ná til þjóðarinnar allrar? Er það yfir höfuð hægt? Getum við bætt D-vítamínbúskap þjóðarinnar og lagt þannig grunninn að því að engin börn eða fullorðnir á Íslandi séu með beinkröm eða beinþynningu? Því er erfitt að svara en þær leiðir sem nú er verið að fara eru, að mínu mati, algerlega rangar og óásættanlegar þegar kemur að því að bæta D-vítamínheilsu Íslendinga.

Fljótlega eftir að umfjöllun komst í hámæli um bágan D-vítamínbúskap Íslendinga fóru að sjást heilsíðu auglýsingar í blöðum og auglýsingar í sjónvarpi um hinar og þessar vörur sem væru annaðhvort stútfullar af D-vítamíni eða því hefði verið bætt við matvæli sem til staðar voru á markaði. Eitt þessara dæma er D-vítamínbætt léttmjólk. Mikilvægt er að taka fram að fyrirtækið sem framleiðir vöruna er ekki að gera neitt rangt með því að D-vítamínbæta léttmjólk enda hefur fyrirtækið og aðilar sem hvað mestan áhuga hafa á því að bæta D-vítamínbúskap landsmanna átt í viðræðum hvernig best sé að koma meira magni af vítamíninu til þjóðarinnar. Það sem ég hef þó áhyggjur af er hvernig þetta er gert, þ.e.a.s. að bæta D-vítamíni í stök matvæli sem mjög fáir neyta þegar ef mark er takandi á neyslutölum á mjólk í niðurstöðum á landskönnun á mataræði.

Hver er tilgangurinn með því að D-vítamínbæta léttmjólk? Þrátt fyrir betrumbætta léttmjólk eru eftir sem áður afar fáir sem ná í æskilegt magn D-vítamíns og má til sanns vegar færa að léttmjólkin breyti engu þegar kemur að D-vítamínheilsu þjóðarinnar (heildar neysla allrar drykkjarmjólkur er einungis rúmlega einn skammtur á dag skv. niðurstöðum landskönnunnar). Markaðssetning D-vítamínbættrar léttmjólkur er fyrst og fremst til þess að selja meira af þessari vörutegund fyrirtækinu til hagsbóta.

Mínus í kladdann frá mér fá þó íslensk stjórnvöld. Þau fá mínusinn vegna þess að enn og aftur ætlast þau til að við, neytendurnir sjálfir, sjáum um alla upplýsingaöflun og allar aðgerðir til þess að bæta heilsu okkar. En þeir sem þekkja til vita að mikill skortur er á upplýsingastreymi til íslenskra neytenda um þessi mál. Þar af leiðandi erum við að fá upplýsingarnar og kennsluna frá markaðsaðilum og slíkt kann ekki góðri lukku að stýra.

Af hverju taka stjórnvöld ekki af skarið og bæta D-vítamíni í matvæli eða hráefni sem fleiri og e.t.v. mikill meirihluti Íslendinga myndi neyta? Af hverju leyfa stjórnvöld markaðsöflum að stjórna neyslu okkar á D-vítamíni, vítamíni sem mikill skortur er á á meðal meirihluta landsmanna? Af hverju leyfa stjórnvöld markaðsöflum að markaðssetja skort Íslendinga á D-vítamíni? Svo því sé haldið til haga þá hefur verð á D-vítamínbættri léttmjólk verið a.m.k. 20 krónum hærra en af venjulegri léttmjólk frá því að sú D-vítamínbætta kom á markað fyrir nokkrum mánuðum.

D-vítamínbætt léttmjólk sem er dýrari en venjuleg léttmjólk:  það gefur auga leið að þessi nálgun mun ekki skila sér í bættri D-vítamínheilsu Íslendinga!

Ég tel að Íslendingar eigi rétt á því að stjórnvöld komi með heildstæðar lausnir þegar kemur að D-vítamínheilsu landsmanna. Ekki gera ekki neitt segir einhvers staðar. Stjórnvöld þurfa að taka þetta til sín.

Það er í hlutverki stjórnvalda að finna leiðirnar en t.d. má skoða að D-vítamínbæta hveiti, leggja meiri áherslu á neyslu á D-vítamínríku lýsi, D-vítamínbæta gosdrykki og fleiri leiðir sem sjá má færar ef horft er út fyrir boxið.  


Matur um borð í flugvélum

Oftar en ekki eru það grasrótarhreyfingar sem keyra erfið en nauðsynleg mál áfram. Stjórnvöld flestra landa eru þunglamaleg og langan tíma tekur að gera breytingar á lögum og reglum. Einu undantekningarnar að mínu mati eru þegar breytingarnar eru þess eðlis að þær skila sér strax til baka til stjórnmálamannsins í formi atkvæðis í kosningum. Því eru oft margar breytingar sem ná í gegn á mánuðunum fyrir kosningar hvort sem það eru nú sveitastjórna- eða alþingiskosningar.

Ljóst er að íslensk stjórnvöld eru ekki að gera nóg til þess að fræða Íslendinga um hvað er æskilegt þegar kemur að heilbrigðri hreyfingu og hollu og góðu mataræði. Nýjasta dæmið er upptaka sænska skráargatsins en mikilvægt var og er að stjórnvöld, í gegnum sínar undirstofnanir, upplýsi neytendur um hvað málið snýst í stað þess að láta það í hendur markaðsaðilum eins og nú er orðið.

Grasrótarhreyfingar eru víða þegar kemur að heilbrigðri hreyfingu og hollu og góðu mataræði. Ekki eru allar þessa grasrótahreyfingar af hinu góða en það er margt, mjög margt sem er gert af aðilum sem mikinn áhuga hafa á því að aðstoða neytendur að velja rétt þegar kemur að hreyfingu eða mataræði. Dæmi um slíkt er til dæmis að finna í Verslunarskóla Íslands en þar hafa kennarar í samstarfi við nemendur tekið yfir rekstur mötuneytisins og aðlagað það að því sem þau vita að er innan marka skynseminnar. Fleiri skólar hafa gert góða hluti hvað þetta varðar og má nefna Borgarholtsskóla og Fjölbrautarskóla Vesturlands á Akranesi sem í gegnum hið ágæta verkefni, Heilsueflandi framhaldsskóli, hafa tekið heilbrigði nemenda sinna fastari tökum.

Fyrir stuttu fór ég í ferð erlendis og flaug í þetta skiptið með Icelandair. Á meðan á flugi stóð áttaði ég mig á því svo um munaði hversu mikil áhrif mörg fyrirtæki geta haft á neytendur þegar kemur að vali á góðum matvælum. Eins og gengur og gerist er boðið upp á veitingar í vélum Icelandair en það sem kom mér hvað mest á óvart, skemmtilega á óvart, var úrvalið sem nú er í boði í öllum vélum flugfélagsins. Þarna er hægt að hafa áhrif á um 180 manns með því að bjóða eingöngu upp á skynsamlegan kost og það eru stjórnendur flugfélagsins að nýta sér. Þetta er reyndar einungis stutt stund, í þessu tilfelli um 5 klst., sem félagið gat haft áhrif en eitt er víst að allt hefur áhrif hversu smátt eða stórt sem það er. Mikilvægt er að nefna hér að ég hef nákvæmlega engra hagsmuna að gæta með skrifum mínum hér gagnvart Icelandair heldur er ég eingöngu að benda á jákvæða þróun sem mér sýnist vera að eiga sér stað.

Á matseðlinum var boðið upp á alls konar girnilega mat og það sem toppaði alla gleðina hjá mér var að boðið var upp á hafragraut en auk þess var boðið upp á ávexti en hvorugt hef ég séð áður í flugvélum annarra flugfélaga sem ég hef flogið með.

Ég vona að önnur flugfélög taki Icelandair til fyrirmyndar og bjóði upp á mat sem fellur vel að því sem talist getur hollt og gott mataræði. Matseðil Icelandair má sjá hér.

Á næstu vikum og mánuðum veit ég svo um fleiri fyrirtæki sem ætla að taka skref í þá átt að aðstoða neytendur við val sitt þegar kemur að hollum og góðum mat. Fylgist með!


Sannleikur eða lygi á Smartlandi? Hvoru trúir þú?

Ljóst má vera að flestar þjóðir glíma við þá þraut að greina sannleikann frá lyginni. Stundum er það þannig að sannleikurinn er lyginni líkastur og því oft erfitt að greina á milli. Oftar en ekki eru fleiri en ein og tvær og þrjár útgáfur af sannleikanum, allt eftir því hver segir frá.

Vísindin eru á margan hátt frábrugðin. Mikill sannleikur liggur oftast í vísindunum en óbrigðul eru þau engan veginn. Til eru dæmi þess að vísindamenn hafi misnotað sannleikann og vísindamenn sem hafa búið til „betri" sannleika. Vísindin sjálf standa þó oftast af sér veður nútímans.

Oftar en ekki er meginþemað í vísindum það sem vísindasamfélagið er sammála um að komist næst því að vera „hinn heilagi sannleikur" þó svo að allir vísindamenn viti að „hinn heilagi sannleikur" er ekki til.

Afar mismunandi er hvort neytendur og samfélagið í heild sinni sé sammála vísindunum og því sem vísindamenn „predika". Oft er litið á læknastéttina sem málssvara „hins heilaga sannleika" og veit ég þess dæmi þar sem mínir nánustu hafa farið til læknis, fengið einhvers konar „framkvæmdaáætlun" vegna t.d. veikinda en aldrei spurt „AF HVERJU viljið þið gera þetta við mig?" eða „eru aðrar leiðir færar?". Sama var uppi á teningnum fyrir hrun þegar við nánast öll hlustuðum agndofa af aðdáun á greiningardeildir bankanna - „...gott er að fjárfesta í xxx sjóðum bankans."

Svo eru þær starfsstéttir sem oft er lítið hlustað á. Sjúkraþjálfarar eru að mínu mati ein þessara stétta sem ekki er hlustað nægilega mikið á. Jú sjúkraþjálfara vita allt sem nauðsynlegt er til þess að aðstoða flesta með kvilla sína en samt sem áður gera fæstir það sem sjúkraþjálfarar biðja um að sé gert. Ég er einn þeirra sem gerir sjaldnast æfingarnar heima sem ég hef verið beðinn um. Það hefur illilega komið í bakið á mér.

Matvælafræðingar eru önnur stétt sem er ómissandi fyrir íslenskan matvælaiðnað en samt eru ekkert sérstaklega margir matvælafræðingar starfandi hjá matvælafyrirtækjum. Ég held því þó fram, og er það mín persónulega skoðun, að matvælaiðnaðurinn væri enn betri hér á landi væru fleiri matvælafræðingar í störfum hjá matvælafyrirtækjum. Til dæmis er það mín skoðun að iðnaðarsaltmálið hefði ekki orðið að því sem það varð ef fleiri matvælafræðingar hefðu verið í þeim fyrirtækjum sem „lentu í" þessu ákaflega klaufalega máli.

Næringarfræðingar tilheyra líka starfsstétt sem þarf að stimpla sig betur inn hjá almenningi. Mataræði og heilsa liggur svo nálægt hjarta okkar að við teljum eðlilega öll að við „vitum best" um okkar eigin líkama - við þekkjum jú okkar líkama best. Eða hvað?

Við kannski þekkjum okkar líkama best utanfrá en þegar kemur að innihaldinu þá erum við flest með minni þekkingu en góðu hófi gegnir og þekkjum lítið sem ekkert um starfsemi líkamans. Þessi vankunnátta á okkar innri líkamsstarfsemi er ekki ósvipuð þekkingarleysi flestra á því hvernig einkabíllinn okkar virkar og er samansettur þó við sjáum auðveldlega hvort bíllinn sé skítugur eða hreinn. Ég þori a.m.k. ekki að reyna að laga bílinn minn þegar hann bilar og aldrei myndi ég reyna að setja vatn á olíutankinn!

En hvernig stendur þá á því að svo margir eru tilbúnir til þess að koma fram við líkama sinn eins og þeim dettur í hug? Og jafnvel setja ofan í hann „einhvern viðbjóð" sem á alls ekki heima þar? Því er erfitt að svara en oftast held ég að þar sé um vanþekkingu að ræða.

Það er annað sem vegur hugsanlega enn þyngra í því hvað við setjum ofan í okkur en vanþekkingin ein: mamma, pabbi, fjölskyldan, vinir, vandamenn, samstarfsaðilar og sölumenn. Þetta eru áhrifavaldar í okkar lífi og flestir vilja okkur vel. Það eru kannski þeir sem þekkja okkur minnst (sölumennirnir) sem er e.t.v. mest sama um hvernig okkur reiðir af; það er nóg að við kaupum af þeim það sem þeir eru að selja og heilsa okkar líklega aukaatriði?

Alltof oft hef ég heyrt sögur frá því þar sem einhverjum „sannleika" hefur verið nánast þvingað upp á fólk og oftar en ekki til þess að kaupa eitthvað, einhverja vöru eða þjónustu af þeim aðila sem býður upp á „sannleikann". Þetta gera mamma, pabbi, fjölskyldan okkar, vinirnir eða samstarfsaðilar sjaldnast þó svo að þess séu dæmi heldur eru það sölumennirnir í flestum tilfellum haga sér á þennan hátt.

Netið er einn farvegur fyrir upplýsingar og í augum marga er netið „hinn heilagi sannleikur". Margir „Gúggla" bara hitt og þetta og slá um sig með upplýsingum þaðan, eins og um væri að ræða „hinn eina heilaga sannleika".

Þetta vita líka þeir sem markaðssetja sig á netinu, á spjallsíðum og á vettvangi netsins, t.d. eins og á www.pressan.is og á Smartlandi Mörtu Maríu Jónasdóttur og víðar. Ég er þar á meðal.

Þar komum við að kjarna þessa pistils. Ég geri mér grein fyrir áhrifamætti netsins og alls þess góða og slæma sem það hefur upp á að bjóða; flestir sem miðla einhverjum boðskap gera það!

Af hverju sjáum við þá svo mikið af staðreyndavillum á netinu? Af hverju er t.d. Smartland Mörtu Maríu stútfullt af staðreyndavillum?

Þegar mér bauðst að skrifa pistla á Smartlandi á sínum tíma setti ég fyrirvara í tölvupósti til Mörtu Maríu um að ég myndi „kúpla" mig út ef þetta yrði sama vitleysan og mér þótti vera þegar Marta María var með www.pressan.is. Ég óskaði eftir faglegheitum og þekkingu þar sem vísindin myndu vera leiðarljósið. Fyrir þetta fékk ég bágt enda taldi hún að allir gætu skrifað góðar greinar til almennings um allt milli himins og jarðar, jafnt menntaðir sem ómenntaðir.

Já auðvitað getur hver sem er skrifað um hvað sem er en ég spurði þá og spyr enn:
Er rétt að hver sem er geti veitt ráð um líkamann, neyslu á matvælum, hvernig líkaminn bregst við hinum og þessum matvælunum og jafnvel gefið ráð um að taka út ákveðin grunn-matvæli? Og  það sem er það allra versta, veitt ráð um að minnka neyslu á lyfjum, uppáskrifuðum af lækni, án þess að ráðfæra sig við lækninn, bara vegna þess að sá sem „predikar" trúir því að það hafi hjálpað honum eða henni samhliða neyslu á einhverju „töframatvæli"?

Gerum við ekki kröfu á að þegar fólk lætur frá sér miklar yfirlýsingar að þeir hinir sömu geti stutt sitt mál með niðurstöðum rannsókna þar sem vísindin sjálf og heiðarleiki eru höfð að leiðarljósi?

Það finnst mé a.m.k.

Ég er búinn að vera mjög tvístígandi að halda áfram skrifum mínum á Smartlandi en ég hef verið hvattur til þess að halda áfram þar sem það séu svo fáar raddir skynseminnar og vísindanna þarna á Smartlandinu að það væri verra að vera þar ekki. En nú veit ég barasta ekki lengur.

Undanfarnar vikur hef ég fylgst með því á Smartlandi hverjir eru að miðla upplýsingum um heilsu almennt og holla og góða næringu og hverju þeir (þær) hafa verið að miðla. Hér stikla ég á stóru en mikið mun meira af vafasömum skilaboðum má finna þarna inni:

Fyrsti pistillinn sem ég hnaut um er frá  Guðrúnu Bergmann og er settur á Smartlandið 22. desember sl. Þessi pistill er eiginlega sér kapítuli og eftir að hafa lesið hann nokkrum sinnum þá komst ég að þeirri niðurstöðu að við gætum hreinlega lifað á dufti einu saman og einstaka pillum með. Hollt, hóflegt og gott mataræði með hreyfingu viðbættri, eins og mér hefur verið kennt að væri undirstaða vellíðunar, væri eiginlega bara algert aukaatriði. - http://mbl.is/smartland/pistlar/gudrunbergmann/1212831/

Þann 1. janúar er grein eftir Guðrúnu Bergmann á Smartlandi þar sem hún talar um að „hreinsa líkamann" eftir jólamatinn, svona eins og líkaminn sé ekki fullfær um það sjálfur án nokkurrar utanaðkomandi hjálpar. Í þessum pistli er mælst til að við neytum dufts og aftur dufts til þess að hreinsa líkamann. Bíddu hvað varð um „hollt og gott mataræði"? Er það trúin að líkaminn sé hin ófullkomna vél og geti ekki séð um sig sjálfur ef honum er sinnt með hollri næringu og heilbrigðri hreyfingu? - http://mbl.is/smartland/pistlar/gudrunbergmann/1214735/

Þann 9. janúar skrifar Guðrún aftur á Smartlandi og að þessu sinni undir yfirskriftinni „Styrkjum líkamann". Þar er m.a. sagt  „.....en kókosolía er jafn áhrifamikil og lyfið flúkónazól (Diflucan). Því ætti að nota hana til meðhöndlunar á sveppasýkingum, einkum candida-afbrigðunum sem erfitt er að meðhöndla með lyfjum". - http://mbl.is/smartland/pistlar/gudrunbergmann/1216162/

Þann 11. janúar er enn einn pistill frá Guðrún Bergmann á Smartlandi og þar er talað um „Hættuleg plastílát" vegna efna í þeim, efna sem eru eftir sem áður heimiluð til notkunar af Evrópusambandinu og yfirvöldum í Bandaríkjunum. Í pistlinum er hræðsluáróðurinn í hávegum hafður og þegar ég hafði lesið þetta þá varð ég hreinlega hræddur og það þrátt fyrir að ég trúi ekki nema fimmta hverjum staf sem þessi konar skrifar yfir höfuð. Hvað ætli sá sem hefur miklar mætur á Guðrúnu hafi gert? Örugglega hent öllum sínum ílátum beint í ruslið!

Nú er ég ekki að segja að ég trúi því að allt sé slétt og fellt og allt sem snertir okkur neytendurna sé fullkomlega öruggt! Ég veit að svo er ekki en verður ekki að nálgast málið af varfærni og með meðalhóf að leiðarljósi og draga eilítið úr hræðsluáróðri (Hættuleg plastílát er heiti greinarinnar)? Gott er að muna að það er fullt af fólki sem trúir hverjum staf sem frá Guðrúnu kemur hvort sem hann er sannur eður ei og ábyrgð hennar því gríðarlega mikil. - http://mbl.is/smartland/pistlar/gudrunbergmann/1210466/

Þann 15. janúar skrifar Guðrún Bergmann enn einn pistilinn á Smartlandinu. Þessi fjallar um morgundrykki og er í sjálfu sér ágætis lesning - þangað til í lokin - en þá fer Guðrún að fjalla um blóðflokkamataræðið. Bíddu, vorum við ekki búin með þennan pakka? Var þjóðin ekki orðin sammála um að blóðflokkamataræðið væri enn ein sölubólan og málið afgreitt? Reyndar vildi svo vel til, eða illa, eftir því hvernig ég lít á málið, að ég hlustaði á fyrirlestur hjá Guðrúnu fyrir ekki svo löngu síðan og þar kom blóðflokkamataræðið upp. Þar sagði hún orðrétt (ég skrifaði þetta niður):

 „Þegar ég fæ stráka til mín í ráðgjöf og þeir eru með eyrnaverk þá er það fyrsta sem ég spyr hvort þeir borði mikinn kjúkling. Ef þeir borða mikinn kjúkling og eru í blóðflokki X (man ekki hvaða blóðflokk hún nefndi enda er það aukaatriði) þá er það fyrsta sem ég ráðlegg þeim að hætta að borða kjúkling".

Þessi ummæli dæma sig sjálf. - http://mbl.is/smartland/pistlar/gudrunbergmann/1217288/

Næringarþerapistinn Þorbjörg Hafsteinsdóttir skrifar á Smartlandi 9. janúar. Þar er Marta María að fá Þorbjörgu til þess að veita „Fantaflott ráð til að hreinsa líkamann".

Þar kemur m.a. fram að líkaminn er „...fullur af lofti og skít" eftir jólaátið og því er góð hreinsun mikilvæg. Þriggja daga djús- eða safafasta eða alvöru 5-7 vikna „hreinsunarvikur" eins og segir í bók hennar 10 árum yngri á 10 vikum með allt að 3ja vikna hreinsun myndi algerlega vera málið. - http://mbl.is/smartland/heilsa/2012/01/09/fantaflott_rad_til_ad_hreinsa_likamann/

Einhvern veginn taldi ég að líkaminn, þetta magnaða fyrirbæri, gæti hreinsað sig af „skít og lofti" einn síns liðs og þyrfti ekkert nema venjulegt gott mataræði og heilbrigða hreyfingu til þess. En hvað veit ég?

Svo bættust við ráðleggingarnar og þá borgar sig, sagði Þorbjörg, þegar að þessari „hreinsun" kemur, að taka út allt glúten, sykur, mjólkurvörur og brauð en ná sér í grænmetisduft frá NOW og hræra út í grænan safa eða bara vatn.

En grænmetisduft.......duft? Kemur þetta frá manneskju sem stendur fyrir því að predika um að við eigum að færa okkur „nær upprunanum"? (http://mbl.is/frettir/sjonvarp/64029/?cat=smartland)

Og henda út öllu brauði? Hmmmmm..............man ekki eftir niðurstöðum rannsókna sem mæla með því.

Einhvern veginn fannst mér að hjúkrunarfræðingurinn Þorbjörg hefði séð vísindaljósið því mér fannst lítið hafa borið á viðlíka ummælum eftir ráðleggingar hennar hérna um árið þegar hún ráðlagði fólki að henda út úr ísskápnum hverri einustu vöru sem væri með eitt eða fleiri aukefni, efni sem samþykkt voru (og eru enn) af Evrópusambandinu og yfirvöldum í Bandaríkjunum til notkunar í viss matvæli.

Smartlandið er líka góður vettvangur, að því er virðist, fyrir auglýsingar. Endalausar auglýsingar frá Hreyfingu um hin og þessi námskeiðin. Það var nú þannig fyrir nokkrum vikum að hvorki fleiri né færri en þrír pistlar á Smartlandinu voru auglýsing fyrir námskeið og tíma í Hreyfingu. Anna Eiríksdóttir, Ágústa Johnson og Ragnheiður Ragnarsdóttir skrifa allar á Smartlandinu og hér má sjá umrædda pistla:

http://mbl.is/smartland/pistlar/stjornuthjalfun/1219741/
http://mbl.is/smartland/pistlar/raggar/1219697/
http://mbl.is/smartland/pistlar/ajoh/1219067/

Marta María ræður sjálfsagt algerlega hvernig hún hagar Smartlandinu sínu en er rétt gagnvart lesendum vefsvæðisins að ganga svona langt í auglýsingahernaðinum? Því má ekki gleyma að þessi skrif eru ekki einstök enda eru flestir pistlar Önnu og Ágústu með tilvitnanir í starfsemi Hreyfingar.

Í Hreyfingu fer fram, að mínu mati, frábært starf að mestu leyti og þetta veit ég því þar starfaði ég í tvö ár fyrir ekki svo löngu síðan. Þar eru frábæri hóptímakennarar og frábær þjónusta í alla staði. En útlitsdýrkunin sem maður upplifir út á við frá fyrirtækinu ríður ekki við einteyming.

Stjörnuþjálfun hitt og þetta, Hollywood hitt og þetta, myndir af ofurþjálfuðum ofurfyrirsætum, „átak" þetta og hitt og fleira gerir það að verkum að maður spyr hvort heilindi og virðing fyrir líkamanum sé haft að leiðarljósi þegar kemur að markaðssetningu og stjórnun fyrirtækisins.

Viðhorfið kristallaðist eiginlega í Stjörnuþjálfun Hreyfingar og Smartlands, sem fór fram fyrir stuttu, en þar tóku nokkrar konur þátt í því að „bæta sig og fegra" með öfgum í þjálfun og mataræði. Sem dæmi þá var þátttakendum ráðlagt að neyta eingöngu 1200 kcal á dag í a.m.k. eina viku þjálfunarinnar en þessi fjöldi hitaeininga er langt undir grunnþörf líkama langflestra kvenna, svo ég tali nú ekki um kvenna sem töldu sig þurfa að grennast og æfðu mjög mikið á þessum tíma. Vorum við sem þjóð ekki orðin ásátt um að öfgakenndir kúrar og átök virka ekki til lengri tíma litið? Frekari raunir mátti svo lesa í umsögnum „keppendanna" sjálfra á Smartlandinu.

Hjá Hreyfingu hefur ansi oft verið vitnað í útlit svokallaðra „hasarkroppa" stjarnanna og spurt hvort við viljum ekki líta út eins og hinn og þessi frægi Hollywood leikarinn. Myndir sem fylgja með eru nánast undantekningalaust af fólki í fanta formi með six-pakkinn til sýnis. - http://mbl.is/smartland/pistlar/ajoh/1217193/

Hvaða skilaboð er verið að senda hér til ungra stúlkna og drengja?  

Svo bætti Smartlandið um betur í útlitsdýrkuninni um daginn þegar þar birtust niðurstöður um 20 best vöxnu konur heims en flestar þessar konur passa ekki í fatnað fullorðinna heldur „neyðast til" að velja sér föt í barnadeildum verslana vegna holdafars síns. - http://mbl.is/smartland/utlit/2012/02/03/18_best_voxnu_konur_heims/

Sú grein sem gerði það eiginlega að verkum að ég ákvað að taka upp penna og skrifa þennan pistil birtist á Smartlandi 16. janúar sl. en þar eru tilgreind „Sex matvæli sem þú ættir ekki að borða".

Þarna er um þýðingu að ræða frá vef Health Freedom Alliance og er talað um að hér sé um að ræða nýjar niðurstöður rannsókna á þessum matvælum.

Það er alveg með ólíkindum að ábyrgðarmenn Smartlands skuli „heimila" þessi ótrúlegu ófaglegheit. Þarna er um beinan áróður að ræða og lyginni líkast hvernig niðurstöður rannsókna eru ýmist mis- eða oftúlkaðar.

Borðum ekki hefðbundnar kartöflur! Er þetta grín? Hvað segja íslenskir kartöflubændur? Ætla þeir að sitja undir þessu?

Ekki borða eldislax? Þarna er vitnað í eina 8 ára gamla rannsókn þar sem framkvæmdin og niðurstöður hennar voru harðlega gagnrýndar. Hvað segir íslenski eldisiðnaðurinn við þessu?

Hefur þýðandi greinarinnar tapað glórunni? - http://www.mbl.is/smartland/heilsa/2012/01/16/sex_matvaeli_sem_thu_aettir_ekki_ad_borda/

Eins og sjá má eru allar ofangreindar greinar og innslög í boði Mörtu Maríu á Smartlandi. Fleira er hægt að tína til en læt ég staðar numið nú í þessari upptalningu.

Rétt er að minnast á að ég veit mæta vel að það er ekki hægt að halda öllu óæskilegu frá fólki hvort sem það er nú upplýsingar eða matvæli. Það er þó mikill munur á því að banna fólki að hafa aðgang að varasömum skilaboðum, eins og gert er t.d. í Norður-Kóreu, og á því hreinlega að stuðla að því að fólk fái þessar vafasömu upplýsingar beint í æð. Því finnst mér í ljósi þeirrar stöðu sem Marta María hefur í samfélagi okkar og þeirri geysimiklu ábyrgð sem á henni hvílir, og vegna vinsælda Smartlands, að Marta María og ábyrgðarmenn www.mbl.is geri sér grein fyrir mikilvægi réttra upplýsinga og uppbyggandi upplýsingastreymis til þjóðarinnar. Það getur ekki verið farsælt fyrir Morgunblaðið og vef þess, www.mbl.is, að mata krókinn á neyð annarra og þeirra sem hvað mest sækja í skyndilausnir (þannig lítur það út fyrir mér a.m.k.).

Það er aukinheldur ekki hægt að skýla sér á bak við þekkingarleysi og þýða beint upp úr glamúrtímaritum.

Neytendur eiga betra skilið.

En ekki er allt svo slæmt að það boði ekki eitthvað gott
Ég býð hér með ofangreindum pistlahöfundum að setjast niður í góðu tómi og ég skal leiða þær í allan sannleikann um vísindi næringarfræðinnar. Það sem ég veit ekki, sem er jú að sjálfsögðu heill hellingur, hef ég fengið aðra næringarfræðinga til að aðstoða mig með. Nóg er af fullfærum næringarfræðingum um allt land og fjöldinn allur af næringarfræðingum sem útskrifast úr flottu námi frá Háskóla Íslands á ári hverju.

Og fyrir þær sem „ströggla" með hvaða skilaboð um holdafar er gáfulegt að láta frá sér fara bendi ég á marga mjög góða sálfræðinga sem finna má á gulu síðunum á www.ja.is. Margir mjög færir sálfræðingar hafa sérhæft sig í skilaboðum samfélagsmiðla og annarra miðla um holdafar og áhrif þeirra á andlega þætti barna og unglinga.

Ég vona að stelpurnar hér að ofan þiggi þetta boð mitt. Ég gerði það fyrir stuttu þegar útsendarar Lifandi Markaðar voru ekki sáttir við mig eftir viðtal á Bylgjunni um lífrænt ræktuð matvæli. Þær buðu mér á fund sem ég umsvifalaust samþykkti að koma á enda veit maður aldrei svo mikið að maður viti allt.

Það sagði Sókrates fyrir tæplega 2500 árum og tel ég að það eigi ennþá vel við.


Er íþróttafræðimenntun nú til dags bara grín og réttindin fengin úr Cheeriospakka?

Sem „gömlum" íþróttakennara hefur mér þótt verulega sárt að sjá hvernig starfsstétt íþróttafræðinga og íþróttakennara hefur dottið út úr samfélagslegri umræðu síðastliðin 20 ár. Þegar ég útskrifaðist frá Íþróttakennaraskólanum á Laugarvatni árið 1992 þótti íþróttakennari nokkuð merkilegur titill. Í dag má þakka fyrir að íþróttakennarar og íþróttafræðingar fá vinnu á heilsuræktarstöðvum landsins, ja a.m.k. sumum þeirra.

En af hverju spyr ég hvort íþróttafræðimenntun sé grín? Það er ekki vegna þess að mér þyki hún ekki mikilvæg eða merkileg. Háskólanám í íþróttafræðum er sex anna eða þriggja ára 180 eininga háskólanám. Námið byggir m.a. á líffærafræði, lífeðlisfræði, hreyfiþroska, næringarfræði, þjálffræði, íþróttasálfræði, uppeldis- og kennslufræði, forvörnum íþróttameiðsla, líkams- og heilsurækt, einkaþjálfun, heilsufræði, heilsuþjálfun almennings, afreksþjálfun, sérkennslu, rannsóknum og mælingum auk íþróttagreinanna. Til samanburðar má geta þess að ÍAK einkaþjálfaranám hjá Keili í Reykjanesbæ er tveggja anna námskeið sem kennt er að mestu í fjarnámi og er metið til 36 eininga á framhaldskólastigi. Einkaþjálfaranámskeið hvort heldur ÍAK, ACE, FÍA eða önnur námskeið eru ekki metin inn í háskólanám.

Ég spyr hvort íþróttafræðimenntunin sé grín eingöngu vegna þess að undanfarna mánuði hef ég heyrt ótrúlegar sögur sem nauðsynlegt er að reifa hér ekki hvað síst til þess að vernda hagsmuni neytenda en auk þess að verja heiður íþróttakennara og íþróttafræðinga.

Hvernig stendur á því, þrátt fyrir ofangreinda menntun íþróttafræðinga, sem útskrifast frá bæði Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík ár hvert, að almenningur sé að ruglast á íþróttafræðingi og einkaþjálfara? Til þess að því sé haldið til haga verður að nefna að íþróttafræðingur er lögverndað heiti en einkaþjálfari ekki. Einkaþjálfari getur hver sem er kallað sig sama hver bakgrunnur og menntun þess einstaklings er. Gildir þá einu hvort ekkert námskeið hefur verið sótt, einkaþjálfaranámið standi yfir eina helgi eða það standi yfir tvær annir eins og hjá Keili.

Ég tel að það séu nokkrar ástæður fyrir þessum ruglingi og fyrir því að almenningur viti ekki hvað íþróttafræðingar geta og kunna. Ein af tveimur megin ástæðunum er sú að stéttin hefur haft sig lítið í frammi og leyft umræðu um hreyfingu og heilsu að fara fram t.d. í fjölmiðlum án þess að koma þar að og í raun „leyft" misvitri umræðu að eiga sér stað án leiðréttinga. Síðari megin ástæðan að mínu mati er sú að umræðan um hreyfingu og heilsurækt er farin að standa og falla með því hvernig einkaþjálfarar, misvitrir eins og gengur og gerist, líta á hin ýmsu heilsutengd mál. Nú þarf það að koma skýrt fram að ég hef ekki nokkurn skapaðan hlut á móti einkaþjálfurum. Ég þekki þá mjög marga og margir þeirra eru miklir fagmenn sem setja ekki árangur viðskiptavina sinna né hégóma sinn ofar heilsu viðskiptavinarins.

En það mál ljóst vera að einkaþjálfari er ekki íþróttafræðingur en íþróttafræðingur getur auðveldlega verið einkaþjálfari og hefur til þess nægilega menntun og rúmlega það.

Þrátt fyrir þessar staðreyndir þá geta íþróttafræðingar ekki fengið vinnu hjá Reebok Fitness í Holtagörðum. Jú reyndar geta þeir það en eingöngu ef þeir eru auk þess með ÍAK einkaþjálfarapróf frá Heilsuskólanum hjá Keili í Reykjanesbæ. Hvernig getur líkams- og heilsuræktarmiðstöð eins og Reebok Fitness talið að einkaþjálfaranám frá Keili sé betra en nám í íþróttafræðum frá tveimur af öflugustu háskólum landsins? Ég hef lesið það sem stjórnendur einkaþjálfaranámsins hjá Keili segja um námið en því miður neyðast þeir til að skilja að ÍAK einkaþjálfaranám kemst ekki með tærnar þar sem háskólanám í íþróttafræðum er með hælana.

Miðað við ofangreindar staðreyndir, hvernig geta þeir í Reebok Fitness neitað íþróttafræðingi um vinnu bara vegna þess að hann er ekki með ÍAK einkaþjálfararéttindi og sagt að þeir ráði bara inn einkaþjálfara með ÍAK réttindi? Eru hagsmunir sértækra hópa settir ofar hagsmunum almennings sem kaupir sér kort í Reebok Fitness? Nei, ég veit ekki enda eru þetta bara mínar eigin tilgátur af hverju íþróttafræðingum hefur verið neitað um vinnu hjá þeim.

Ég er ekki að segja að íþróttafræðingurinn sé alltaf betri einkaþjálfari en sá sem er eingöngu með einkaþjálfararéttindi en það má ljóst vera að íþróttafræðingurinn hefur mun meiri þekkingu á mun fleiri sviðum en einstaklingar sem hafa klárað einkaþjálfaranám hvort sem það er nú helgarnámskeið eða tveggja annað nám eins og hjá Keili.

Hreyfiseðlar heilsugæslunnar
Nokkrar heilsugæslustöðvar eru að prófa sig áfram með svokallaða hreyfiseðla. Hreyfiseðlarnir ganga út á að læknar geti skrifað upp á hreyfingu í stað lyfja eða samhliða lyfjagjöf. Eftir því sem ég best veit þá gengur þetta vel þar sem það er í prófun og almenn ánægja með þessa leið í forvörnum og heilsueflingu landsmanna. En á sama tíma og ég fagna þessu þá spyr ég af hverju það eru eingöngu sjúkraþjálfarar sem geti tekið á móti einstaklingum sem fengið hafa uppáskrifaða hreyfingu frá lækni? Reyndar átti ég samtal við lækni einn í Heilsugæslustöðinni í Garðabæ og sagði hann mér að um tilraun væri að ræða og ekki væri loku fyrir það skotið að inn í þetta kæmu íþróttafræðingar og aðrir fagmenn þegar fram líða stundir og þegar og ef ákveðið verður að innleiða þessa leið varanlega inn í heilbrigðiskerfið.

Eftir sem áður tel ég það umhugsunarvert, þá ekki hvað síst fyrir starfstétt íþróttafræðinga og íþróttakennara í heild sinni, hvernig gengið hefur verið fram hjá þeim fagaðilum sem líklegast eru hvað best til fallnir að sinna þeim einstaklingum sem fengið hafa hreyfiseðlana uppáskrifaða.


In-Out-Hour!

Allt telur!


Hvernig stendur á því að svo margir setja það fyrir sig að byrja í ræktinni? Þá er ég ekki eingöngu að meina „í ræktinni að fara í líkamsræktarstöð og taka vel á því" heldur alls kyns líkamsrækt og reyndar líkams- og heilsurækt af öllum toga. Getur það verið af því að of mikil áhersla er lögð á sjáanlegan árangur? Getur það verið vegna þess að maður er ekki með mönnum nema ef þjösnast er í 90 mín. hið minnsta? Slíkan tíma geta þó ekki allir leyft sér að nota í heilsurækt sína á hverjum degi. Auðvitað er nauðsynlegt að brenna hitaeiningum umfram það sem líkaminn þarfnast til þess að grennast og léttast og slíkt krefst þess að meiri tíma sé varið í hreyfingu (fyrir marga 30-40 mín. hið minnsta). Ef markmið númer eitt er ekki endilega að grennast eða léttast heldur að fá ávinninginn af hreyfingunni fyrir hjarta- og æðakerfi og andlega vellíðan þá er óþarfi að eyða of miklum tíma í ræktinni.

Rannsóknir benda sterklega til þess að 30-60 mínútur á dag dugi til þess að fá umtalsverðar jákvæðar breytingar í hjarta- og æðakerfi og í almennri vellíðan (sjá skemmtilega framsetningu á þessu í myndbandinu hér neðst).

Gott er því að hafa í huga, þá sérstaklega þegar tími aflögu er lítill, að 10 mín að morgni í létta göngu, 10 mín í hádegi í léttri göngu og 10 mín hjólatúr í lok dags geta gert gæfumuninn fyrir heilbrigt hjarta- og æðakerfi og almenna andlega og líkamlega vellíðan.

Klukkustund með öllu, þ.e.a.s að klæða sig í æfingaföt, hreyfa sig, fara í sturtu og klæða sig, er því tíminn sem allir ættu að fara létt með að „leyfa" sér að fá til þess að huga að heilsunni.

In - out - hour!  - a.m.k. þegar tíminn er af skornum skammti.

 


Ekki er allt gull sem glóir þegar kemur að fæðubótarefnum

Markaðurinn með svokölluðum heilsuvörum, hvort sem það er nú fæðubótarefni, fæðuauki, plöntuextraktar eða annað, hefur farið stækkandi undanfarin ár og var hann þó orðinn stór fyrir.

Oft eru vörur boðnar til sölu sem virka eins og þær eru sagðar virka í auglýsingum en því miður er það þó mjög oft svo að fólk kaupir köttinn í sekknum. Hér fyrir neðan eru fullyrðingar sem oft heyrast þegar tveir eða fleiri koma saman og ræða þessi mál.

B-12 vítamín læknar þynnku: það er ljóst að það gengur á B-vítamínforðann við langvarandi drykkju. Aftur á móti er ekkert í vísindunum um jákvæð áhrif af stærri skömmtum af B-12 vítamíni á þynnku sem kemur í kjölfar einstaka ofdrykkju.

Ginseng gerir þig gáfaðri: til eru mismunandi tegundir af ginseng sem hafa að einhverju leyti mismunandi áhrif. Ekkert er í vísindunum um það hvort ginseng geri mann gáfaðri. Hitt er annað mál að flestar tegundir af ginseng hafa einhver örvandi áhrif og við örvun miðtaugakerfis, þ.m.t. heilans, má vel vera að fólki finnist það vera gáfaðra.

Sólhattur læknar flensu: sólhattur læknar ekki flensu. Mjög mismunandi er þó hvort niðurstöður rannsókna styðji að sólhattur geti dregið úr áhrifum flensu, líkt og haldið hefur verið fram með C vítamín. Líkur á eituráhrifum vegna neyslu á sólhatti eru litlar ef neyslan er í samræmi við ráðleggingar og því getur neysla á sólhatti sennilega ekki gert neitt ógagn en spurningin hvort sólhattur geri eitthvert gagn yfir höfuð.

A-vítamín bætir sjónina: ef um er að ræða skort á A-vítamíni, sem er ekki tilfellið hjá flestum Íslendingum, þá getur viðbót af A-vítamíni bætt sjónina. Hins vegar getur A-vítamín á formi retínóla (retinol, retinal) verið mjög skaðlegt í stórum skömmtum. Því er mikilvægt að halda sig sem næst ráðlögðum dagskammti (RDS) og neyta ekki meira af A-vítamíni en nauðsynlegt er.

Kreatín gerir þig sterkari: kreatín er oftast á forminu kreatín-fosfat (CP). Adenósín-þrí-fosfat (ATP) er geymslustaður orku í líkamanum. Við aukna neyslu á kreatín-fosfati stuðlum við að því að hafa meira af ATP við áreynslu í stutt, snörp átök (1-10s). Því er talið að við getum bætt ákefð í stuttum, snörpum átökum ef við neytum fæðubótarefna sem innihalda kreatín. Niðurstöður rannsókna, sem nær eingöngu hafa verið gerðar á karlmönnum 18-40 ára, benda til þess að neyslan sé án óæskilegra hliðarverkana fyrir þann hóp. Upplýsingar varðandi aðra hópa liggja ekki fyrir og því ættu börn og unglingar ekki að neyta kreatíns.

C vítamín dregur úr skaða af völdum reykinga: best er fyrir líkamann ef fólk reykir ekki. C vítamín er andoxari og getur því dregið úr skaðlegum áhrifum, t.d. súrefnis, á frumuhimnur líkamans. Skaðleg áhrif vegna oxunar eru meiri hjá reykingamönnum vegna sígarettureyksins en hjá þeim sem ekki reykja. Það virðist sem neysla á C vítamíni, allt að 100mg á dag, geti komið að gagni við að draga úr oxunarskaðsemi reykinga. Þess ber þó að geta að skaðsemi reykinga er ekki eingöngu bundinn við þennan þátt.

Matur er alltaf betri en fæðubótarefni


Króm dregur úr sykurlöngun
: króm er mikilvægur hlekkur í insúlínviðbrögðum líkamans en insúlín hefur, m.a. áhrif á magn sykurs í blóði. Hjá þeim sem eru með sykursýki geta insúlínviðbrögðin verið skert og því er talið að viðbótar króm geti hjálpað þeim við blóðsykurstjórnun. Aukin neysla á krómi er ekki talin geta stuðlað að betri blóðsykurstjórnun, og þar með sykurlöngun, hjá þeim sem eru með eðlilega stjórnun á blóðsykri (þ.e. ekki með sykursýki af neinni tegund).

D vítamín styrkir bein: D vítamín er fituleysanlegt vítamín sem margir vilja frekar kalla hormón-líkt efni vegna hlutverks þess í líkamanum. D- vítamín hefur m.a. áhrif á það hversu vel við nýtum kalk úr fæðunni. Kalk er mikilvægt í uppbyggingu og viðhaldi beina og því eru það gömul og ný sannindi að D vítamín og kalk eru nauðsynleg í hæfilegu magni til að móta og viðhalda sterkum beinum. Hreyfing eykur einnig styrk beina.

Kalíum er vöðvaslakandi: kalíum (K) gegnir mikilvægu hlutverki í starfssemi taugakerfis og vöðva. Kalíum hefur m.a. hlutverki að gegna í taugaboðum til vöðva um að slaka skuli á herptum vöðva. Styrk kalíum er mjög vel stjórnað í líkamanum og ef fólk er á annað borð ekki með neina sjúkdóma sem brengla kalíumjafnvægi líkamans, m.a. hjartavöðva, er alger óþarfi, og reyndar óæskilegt, að neyta mikils magns af kalíum sem fæðubótarefnis í þeirri trú að það hafi vöðvaslakandi áhrif

Koffín er fitubrennsluefni: mögulegt er að koffín auki flutning á fitu úr geymslu. Það sem er þó mun viðameira eru áhrif koffíns á miðtaugakerfið. Koffín hefur á óbeinan hátt örvandi áhrif á miðtaugakerfið, þ.m.t. heila. Við örvun miðtaugakerfis erum við líklegri til að hreyfa okkur og sú hreyfing er í raun ástæða þess að við brennum meiri orku og þar með meiri fitu frekar en bein fitubrennsluáhrif koffíns. Þess ber þó að geta að neikvæðar hliðarverkanir geta fylgt neyslu á koffínríkum matvælum og er ófrískum konum, konum með börn á brjósti, börnum og þeim sem eru viðkvæmir fyrir koffíni ráðlagt frá því að neyta koffíns í miklu magni.

E vítamín kemur í veg fyrir bólur: margir neyta E vítamíns í meira magni en ráðlagður dagskammtur segir til um í þeirri von að E vítamínið hafi verndandi áhrif gagnvart hjarta- og æðasjúkdómum. Rannsóknir upp á síðkastið benda þó til þess að þau verndandi áhrif hafi verið ofmetin undanfarin ár og áratugi. Varðandi bólumyndun þá er sá sjúkdómur vegna annarra þátta (m.a. stærri fitukirtlar vegna uppsafnaðrar húðfitu) og ekkert í vísindum næringarfræðinnar sem styður þá tilgátu að E vítamín geti komið í veg fyrir bólumyndun.

Mikilvægt er fyrir neytendur að gera sér grein fyrir því að margt af því sem er í sölu hér á landi, sem og annars staðar, er e.t.v. gagnslaust þó svo að neyslan skapi enga hættu sé farið að ráðleggingum varðandi magn. Sem neytendur verðum við að vera gagnrýnin á þær upplýsingar sem okkur eru veittar og spyrja hvaðan þessar upplýsingar koma. Ef greinilegt er að upplýsingarnar eru ekki studdar með vísindalegum gögnum og viðskiptasjónarmið ráða hvernig upplýsingarnar eru framsettar, þá er æskilegt að þessum upplýsingum sé tekið með varúð. Við val á fæðubótarefnum, fæðuauka, plöntuextröktum og öðrum slíkum efnum er oft gott að hafa eftirfarandi að leiðarljósi:

Ef auglýstir eiginleikar vöru eru of góðir til að vera sannir, þá eru þeir líklega ósannir!


Góð ráð til að viðhalda heilbrigðum lífsstíl og njóta um leið jólanna

Jólin eru á næsta leiti og skemmtilegt en jafnfram streitufullt tímabil gengur í garð. Við þurfum að versla jólagjafirnar, ganga frá lausum endum í vinnunni og svo ekki sé talað um allar skemmtilegu uppákomurnar sem bíða okkar. Það er einmitt það síðastnefnda sem getur verið afskaplega erfitt fyrir þann sem er annt um heilsuna og umhugað um að viðhalda þeim heilbrigða lífsstíl sem tók svo afskaplega langan tíma að temja sér. Jólahlaðborð getur skapað kvíða fyrir þann sem er umhugsað um mataræðið og öll þessi dagskrá sem við tökum þátt í, af eigin áhuga eða vegna félagslegrar pressu, gerir fólki erfitt um vik við að halda hitaeiningunum innan skynsamlegra marka.

Góðu fréttirnar eru þær að það er hægt að njóta jólamatarins án þess að allt fari á versta veg. Þetta er hægt með því að minnka skammtana.

Ekki er ólíklegt að mörg okkar þyngist um a.m.k. 0.5 kg að meðaltali frá byrjun desember og fram yfir jólahátíðarnar. Oft á tíðum er þessi viðbótarþyngd komin til að vera. Ein leið fyrir starfsfólk í líkamsræktargeiranum við að fá fólk til að halda í heilbrigðan lífsstíl yfir jólahátíðarnar er að koma með ferskar hugmyndir um hvernig hægt er að berjast á móti líkamsþyngdaraukningu jólanna. Eftirfarandi eru raunhæfar lausnir um það hvernig njóta megi matarins yfir hátíðarnar án þess að það sé gert á kostnað heilbrigðs lífsstíls.

10 góð ráð fyrir jólahlaðborðin
Hverjum þykir ekki gaman að fara í jólahlaðborð? Vandamálið er aftur á móti það að þar er oft matur á boðstólnum sem er bæði fitu- og hitaeiningaríkur. Góðu fréttirnar eru þær, segja næringarfræðingar, að hægt er að njóta jólamatarins án þess að allt fari á versta veg. Þetta er hægt með því að minnka skammtana. Hvaða matar sem er má neyta. Aðalatriðið sé að hafa hlutina í samhengi. Þetta snýst nánast eingöngu um skammtastærðir þannig að maður borði ekki meira en líkaminn þarf.

1. Hafðu áætlun og haltu þig við hana
Til að viðhalda heilbrigðum lífsstíl er mikilvægt að gera sér grein fyrir hverjar hætturnar eru og vera tilbúin með raunhæfa lausn við að komast hjá mestu hættunum. Það er mikilvægt að neytendur geri sér grein fyrir að enginn er fullkominn í mataræði sínu og á þetta sérstaklega við um jólahátíðina. Gott er að hafa í mesta lagi tvö markmið þegar kemur að jólahátíðinni. Til dæmis að viðhalda öflugri æfingaáætlun og varast að borða á þig gat af einhverju sem þú ert veik/ur fyrir, s.s konfekti. Ef þú gerir þér grein fyrir veikleikum þínum og sérð hættuna fyrir þá ertu mun líklegri að halda því sem var fyrirfram ákveðið.

2. Haltu eðlilegu vikuplani
Þrátt fyrir að jólatíðin sé tími óhefðbundinnar dagskrár þá er mikilvægt að halda eðlilegum matmálstímum. Allt of margir reyna að bæta lélegt mataræði með því að sleppa máltíðum. Þessháttar hegðun gerir lítið annað en að auka hungurtilfinningu og stuðlar að slæmum valkostum í næstu máltíð eða í næsta jólahlaðborði. Enn og aftur þá borgar sig að hafa áætlun. Ef stefnan er sett á jólahlaðborð með vinnufélögunum um kvöld getur verið góður kostur að borða léttari hádegismat þar sem t.d. salat með grilluðum kjúklingi er á boðstólnum. Einnig getur verið gott að borða trefjaríkari mat, s.s. eins og litskrúðugt grænmeti (t.d. gulrætur) um miðjan dag til að hungurtilfinning verði ekki búin að ná hámarki þegar kemur að jólahlaðborðinu.

3. Vertu með hugann við efnið
Þegar kemur að því að velja sér af jólahlaðborðinu, vertu viss um að þú sért búin/n að kanna hvað er í boði áður en þú byrjar að fylla á diskinn. Ef þú veist hvað er í boði þá er líklegra að þú veljir fyrst það sem er betri kostur. Ef þú velur fyrst það sem er talið hollara þá er líklegra en ekki að seddu tilfinning geri vart við sig fyrr og því hefur í raun og veru tvennt áunnist: þú hefur borðað hollari mat og það verður minna pláss fyrir óhollari matinn. Annað sem hægt er að hafa í huga er að staðsetja borðið sem þú situr við þannig að það sé ekki í seilingarfjarlægð frá jólahlaðborðinu sjálfu. Ef jólahlaðborðið er tiltölulega langt frá þá eru meiri líkur á því að þú farir sjaldnar að ná þér í mat heldur en ef maturinn er mjög nálægt þínu borði. Auk þess getur þú brennt einhverjum viðbótar hitaeiningum við að ná í matinn ef hann er lengra frá þér.

4. Vertu vandlát/ur
Það er eðlilegt að vilja fá sér af öllu sem er í boði en það getur verið snjallt að fá sér ekki of mikið af hefðbundnu meðlæti heldur að nota það pláss sem við höfum fyrir þá rétti sem eru nánast eingöngu í boði yfir hátíðarnar. Við eigum "rétt á" ákveðnum fjölda hitaeininga í hverri máltíð og skynsamlegt er að nýta þennan "rétt" okkar eingöngu í okkar uppáhalds jólamat.

5. Varastu fljótandi hitaeiningar
Mjög auðvelt er að innbirgða allt of margar hitaeiningar þegar þær eru á fljótandi formi. Auðvelt er að yfirfylla magann af vökva og í raun og veru miklu auðveldara en að gera það með mat á föstu formi. Einn bjór getur auðveldlega innihaldið 250-350 hitaeiningar og þegar mataræði meðalmanneskjunnar samanstendur kannski af rétt um 2000 hitaeiningum þá er auðvelt að sjá að það þarf ekki marga drykki til að koma ójafnvægi á neysluna og neyta of margra heitaeininga.

6. Mundu eftir skammtastærðum
Þeim mun stærri sem diskurinn er þeim mun meira er líklegt að við borðum. Þegar staðið er fyrir framan hlaðborð er auðvelt að setja svo mikið magn af mat á diskinn að heildarhitaeiningamagn máltíðarinnar fari langt yfir daglega orkuþörf okkar. Skynsamlegt er að nota minni diska og getur því verið gott að nota salatdisk eða disk fyrir eftirrétti þegar borðað er af jólahlaðborði.

7. Komdu líkamanum í gang með góðum morgunmat
Ekki fara út úr húsi án þess að borða eitthvað. Ef þú ert á gríðarlegri hraðferð út úr húsi, gríptu 150-200 hitaeiningar helst sambland af trefjaríku og próteinríku fæði. Lítil handfylli af rúsínum og skyr.is drykkur (helst án viðbætts sykurs) eru góður kostur. Ekki má gera lítið úr mikilvægi þess að drekka vel strax á morgnana og reyndar ætti hver og einn að drekka sem samsvara 6-8 glösum á dag af hreinu íslensku vatni.

8. Fylgstu með sjálfri/sjálfum þér
Settu þér markmið fyrir desembermánuð. Forsenda þess að ná árangri er að setja sér markmið. Notaðu þau viðmiðunartæki sem henta þér best, t.d. matardagbók eða mælingar á fituprósentu, þegar þú ert að meta hvort markmiðin hafi nást. Vertu nákvæm/ur ef þú heldur matardagbók og ekki draga neitt undan. Til þess að haldast á réttri braut er mikilvægt að hafa markmiðin ofarlega í huga og gott getur verið að skrifa þau niður og fara með á hverjum degi líkt og bænirnar.

9. Mikilvægi samverunnar
Mundu að þegar þú ferð í jólahlaðborð þá þarftu ekki að borða á þig gat. Öll jóladagskráin má líka ganga út á það að vera í kringum skemmtilegt fólk og þá sem þér þykir vænt um og minna um það sem þér þykir gott að borða.

10. Ekki fara í megrun fyrir og um jólin

Megrun á þessum árstíma er sjálfskaparvíti sem getur ekki endað nema á einn veg: illa. Allt of margir hafa reynt þetta og komist að því, oft við illan leik, að ávinningurinn er enginn. Þeir sem fara í megrun á þessum árstíma springa á limminu í öllum tilfellum og neysla matar verður einungis meiri heldur en ef einstaklingurinn setur sér einföld, viðráðanleg og skýr markmið varðandi mat og líkamsrækt.

Hollur hátíðarmatur? Engin spurning
Er mögulegt að hafa hollan mat yfir jólamánuðinn? Engin spurning og þá sérstaklega þegar maturinn er heimalagaður. Jólamaturinn er í eðli sínu góð blanda af mikilvægum næringarefnum og inniheldur mikilvæg vítamín og steinefni. En þrátt fyrir þessa staðreynd má oft gera betur og lítið þarf til að hátíðarmaturinn verði ennþá betri án þess þó að ganga á gæði matarins né spilla fyrir bragðlaukunum. Fyrst má leita leiða til að minnka heildar hitaeiningamagn matarins. Gott ráð er að fækka fituríkum matvælum sem boðið er upp á. Í sumar uppskriftir verður að nota smjör en vel má vera að hægt sé að minnka það magn sem notað er. Einnig er oft hægt að minnka magn sykurs sem fer í uppskriftir á þessum árstíma.

Einnig má athuga hvort ekki megi stjórna skammtastærðum örlítið betur en gert er. Í stað þess að bjóða upp á 2 lítra ís í boxi væri hægt að bjóða upp á stakar pakkningar af ísblómi svo dæmi sé tekið. Þetta eykur líkurnar á því að minna magns sé neytt af eftirréttinum og þar með fækka hitaeiningunum. Ekki er ólíklegt að gestirnir þakki þér síðar fyrir þessa breytingu.

Öll viljum við bjóða gestum okkar upp á nægan mat um hátíðarnar. En það getur snúið upp á sig að bjóða upp á alltof mikinn mat. Gestum gæti fundist þeir verða að klára það sem boðið er upp á og því neytt fleiri hitaeininga en eðlilegt getur talist. Gott ráð er að nota smærri ílát þegar matur er á borð borinn og á þetta sérstaklega við um fituríkan mat. Fólk tekur ósjálfrátt minna magn af mat úr smærri ílátum.

En þýðir þetta þá að við getum ekki einu sinni notið okkar yfir jólamánuðinn?
Síður en svo. En spurningin er hvort ekki sé hægt að fara hinn gullna meðalveg á þessum árstíma líka? Neytum þess sem okkur langar til en borðum bara minna. Bjóðum upp á og borðum hollan mat með þeim mat sem telst síður hollari. Fyllum diskinn af grænu og vænu. Mundu eftir litunum; litskrúðugt grænmeti og ávextir eru ávísun á góða blöndu af vítamínum, steinefnum og trefjum.

Og ekki gleyma börnunum

Gott er að hafa í huga að það sem við temjum okkur er líklegt að börnin okkar temji sér. Eiga börnin okkar það ekki skilið að við gerum það sem í okkar valdi stendur til að þau falli ekki í farveg tölfræðinnar sem nefnd var hér að framanverðu (0.5 kg viðbót um hver jól)?


Hættulegir orkudrykkir?

Umræðan um orkudrykki hefur verið hávær undanfarið. Síðastliðið sumar skrifaði ég grein um koffín sem birtist í Morgunblaðinu og Fréttatímanum og einnig á www.mbl.is. Þessa grein er vert að lesa aftur vegna þeirrar umræðu sem nú á sér stað um neyslu barna og unglinga á Íslandi á orkudrykkjum („Kaffidrykkja íslenskra barna er staðreynd!").

Ein af stóru fréttunum sl. daga var um tvo unga drengi sem lagðir voru inn á spítala með hjartsláttatruflanir og frekari vanlíðan. Annar þeirra upplifði þessar raunir eftir drykkju á stórum orkudrykk af tegundinni Red Rooster sem skilja má á fréttum að hafi verið keyptur í verslunum Samkaupa. Þetta er haft eftir móður annars drengsins.

Viðbrögð hafa verið sterk við þessum fréttum og sitt sýnist hverjum þegar kemur að neyslu barna og ungmenna á orkudrykkjum og öðrum drykkjum með örvandi efnum eins og koffíni.

Mikilvægt er að benda á að ekkert ólöglegt hefur farið fram ef mark er takandi á fréttum. Hvorki gerðu strákarnir sig seka um að neyta ólöglegra efna né heldur var verið að selja ólöglega vöru í Samkaupum. En seinna atriðið og ofangreindar fréttir sýna e.t.v. hversu stórt  vandamálið er og hversu mikil áskorunin er sem blasir við ungum neytendum og foreldrum þeirra:  á Íslandi eru vörur til sölu í verslunum, löglegar vörur, sem eru fullkomlega óæskilegar fyrir börn og unglinga að neyta.

Engin takmörkun er á magni koffíns í drykkjarvörum á Íslandi.  Innihaldi drykkur koffín skal það koma fram í innihaldslýsingu og ef koffín magn er yfir 150 mg/l skal merkja „Inniheldur mikið af koffíni" þannig að það sjáist um leið og heiti vörunnar.  Á eftir þeim texta skal í sviga tilgreina hvert magn koffíns er í mg/ 100 ml.  Sjá reglugerð 884/2003 um merkingu matvæla sem innihalda kínín og matvæla sem innihalda koffín.

Af heimasíðu Matvælastofnunar, www.mast.is.

Hverjir eru börn og hverjir eru unglingar? Á hvaða aldri eru þessir einstaklingar? Hvenær hætta þau að vera börn og unglingar og „fullorðnast"?

Þessu er erfitt að svara og fer svarið algerlega eftir því hvern þú spyrð, hvar hann á heima, t.d. í hvaða landi, hvort þú spyrjir flugfélag eða fjármálaráðuneytið, sem fer með sölu áfengis á Íslandi, eða spyrð einstaklinginn sjálfan þegar deilur um útivistartíma spretta upp á milli barns og foreldris. Sameinuðu þjóðirnar tilgreina ekki sérstakan aldur þar sem börn verða fullorðin enda mismunandi á milli heimssvæða hvernig þessir hlutir eru skilgreindir. Til dæmis er Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna fyrst og fremst til þess, er aldur varðar, að börn séu ekki sett í aðstöðu og aðstæður sem ekki eru til hæfis þeirra aldri. Barnasáttmálinn tilgreinir einnig orðrétt  

„.....að börn séu hópur sem þarfnist sérstakrar verndar umfram hina fullorðnu."

Samkvæmt íslenskum lögum verður einstaklingur sjálfráða og fjárráða við 18 ára aldur og margir tala um 18. árið sem árið þegar maður verður lögráða og öðlast öll þau réttindi og gengur að öllum þeim skyldum sem á fullorðnum lögráða einstaklingum hvílir. Svo þekkja flestir að „áfengisaldur" er 20 ár.

Hvernig í ósköpunum stendur þá á því að sumir framleiðendur og innflutningsaðilar orkudrykkja merkja orkudrykki sína „ekki ætlaða til neyslu yngri en 15 ára"? Rétt er að minnast á að engar skyldur hvíla á þessum aðilum að merkja orkudrykki á þennan hátt. Engar reglur eru um merkingar á orkudrykkjum umfram það sem gildir um hefðbundin önnur matvæli nema að því leytinu að ef magn koffíns í drykkjum er yfir 150 mg/lítra þá skal það merkt á ákveðinn hátt.

Það má því  segja að fyrirtækin séu í raun að gera neytendum, börnum og foreldrum þeirra,  greiða með því að merkja með varnaðarorðum um áhrif innihalds á neytendur sem og að orkudrykkir séu ekki ætlaðir ákveðnum hópi neytenda.

En af hverju ganga fyrirtæki ekki alla leið og ráðleggja öllum börnum frá því að neyta drykkjanna? Þessu get ég ekki svarað en mér þykir líklegt að gróðasjónarmið ráði hér för.  Salan er einfaldlega það mikil í aldursflokknum 16-18 ára, nú eða 16- 20 ára, að það myndi hafa veruleg neikvæð áhrif að merkja þetta með frekari varnaðarorðum.

Það er vitað mál að koffín er örvandi efni. Þetta vita íþróttamenn, samtök íþróttamanna úti um allan heim, vísindamenn sem hafa rannsakað efnið í áratugi, neytendur, foreldrar sem drekka kaffi og allir þeir sem hafa einhvern tímann látið ofan í sig vöru sem inniheldur koffín. Þar sem koffín er örvandi getur það klárlega haft jákvæð áhrif á dagleg störf og hversu miklu við komum í verk. Hófleg neysla á koffíni getur haft jákvæð áhrif á getu í mörgum íþróttagreinum og aðstoðað við að halda einbeitingu.

En það eru einmitt þessi áhrif og miklu fleiri sem gera það að verkum að koffínneysla er algerlega óásættanleg á meðal barna og unglinga.

Við megum ekki gleyma því að þar sem koffín er örvandi efni þá hefur það t.d. áhrif á hjartslátt og þeim mun léttari, í kg talið, sem einstaklingur er sem neytir koffíns þeim mun sterkari eru áhrifin. Allt tal um að hjartsláttartruflanir unglings sem hefur neytt eins lítra af orkudrykk, og þar með 320 mg af koffíni, séu ekki vegna neyslu á koffíni er ábyrgðarlaust hjal og dæmir sig sjálft.

Fram að þessu hef ég sem næringarfræðingur gefið leiðbeiningar um að orkudrykkir séu ekki íþróttadrykkir. Íþróttadrykkir eru notaðir með réttu í mörgum íþróttagreinum þar sem svitatap er umtalsvert. Þessar leiðbeiningar eiga ennþá við en þegar ég var í Bónus í gær sá ég að nánari útskýringar eru nauðsynlegar. Nú er hægt að kaupa bæði Powerade og Lucozade með koffíni en þessar vörur hafa fram að þessu ekki innihaldið koffín. Þessi staðreynd er ekki til þess að hjálpa börnum og unglingum að sneiða fram hjá koffínríkum vörum. Það sem aðskilur þó þessa koffínríku drykki frá íþróttadrykkjum er að á þeim stendur ENERGY fyrir neðan nafnið Powerade eða Lucozade og er það til merkis um að þau innihaldi koffín. 

Ég hef oftar en einu sinni óskað eftir því opinberlega að framleiðendur, innflutningsaðilar, seljendur og aðrir sem koma að markaðssetningu matvæla taki á sig þá samfélagslegu ábyrgð sem þeim, að mínu mati, ber skylda til og sýni neytendum þá virðingu sem þeir eiga svo sannarlega skylda.

Eru fyrirtæki sem auglýsa orkudrykki að brjóta lög? Nei klárlega ekki en hvernig þau „keyra sig inn í hug" barna og unglinga er óásættanlegt frá sjónarhorni mínu sem fagaðila og foreldris tveggja barna.

Fyrirtæki verða að sýna ábyrgð og virða hin ýmsu viðmið sem í gangi eru og ráðleggingar vísindamanna þó svo að lög kveði ekki á um slíkt. Það er vitað að stærstur hópur íslenskra fyrirtækja kann markaðsfræðin sín upp á tíu og veit að góðar heilnæmar vörur gefa fyrirtækinu gott orð og gera það að verkum að meira selst. Það á því ekki að þurfa að ala á fákunnáttu barna og foreldra. Mikilvægt er að allir, ég og þú og þeir sem stjórna í fyrirtækjum muni eftir því að:

Börn eru hópur sem þarfnast sérstakrar verndar umfram hina fullorðnu!

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband