Sé viljinn til staðar er allt hægt!

Undanfarin 11 ár hef ég fengið fólk til mín í næringarráðgjöf. Þetta hafa verið einstaklingar sem hafa verið í fínu formi og viljað bæta um betur, einstaklingar upp á 150 kg., með BMI langt yfir 35 og einstaklingar þar á milli.

Með skrifum mínum hér er ég ekki á nokkurn hátt að gera lítið úr því alvarlega vandamáli sem offita á Íslandi er enda benda skrif mín og viðtöl við mig í blöðum, sjónvarpi og útvarpi til þess að skilningur minn á stærsta vandamáli Íslandssögunnar sé svo sannarlega til staðar. Ég vil gjarnan gera meira úr þessu alvarlega vandamáli okkar en margur annar og þá sérstaklega margir af okkar áhrifamestu stjórnmálamönnum.

Fyrir um mánuði síðan sá ég frétt í miðlum þess efnis að ung kona hefði misst um 55 kg af líkamsþyngd sinni. Mér fannst þetta áhugaverð frétt og ekki síður fyrir þær sakir að í útdrætti fréttarinnar koma fram að þyngdarmissirinn hefði tekið hana rúm 5 ár. Ég skoðaði fréttina alla og hlustaði agndofa á það sem þessi fallega kona hafði að segja.

Einstaklingurinn sem hér um ræðir er Karen Anna Guðmundsdóttir og fyrir mig var hún sem himnasending. Loksins þorði einhver að segja frá "raunum" sínum opinberlega þar sem flest var gert rétt út frá næringarfræðilegu sjónarhorni. Það varð því ljóst að ég bara varð ég að fá frekari upplýsingar um hvernig þetta fór allt saman fram hjá henni þessi 5 ár eða svo.

Ég hitti svo Karen yfir kaffibolla nú fyrir stuttu og hún sagði mér allan sannleikann! Smile

Ég gæti skrifað heila bók um hversu rétt á allan hátt þessi ótrúlega kona fór að þessu en hér mun ég stikla á stóru

  1. Það var þegar Karen leit eitt sinn í spegill heima hjá sér þegar hún vara að úða í sig frönskum kartöflum að hún lét frá sér frönskurnar, fleygði þeim í ruslið og sagði hingað og ekki lengra.
  2. Foreldra hennar höfðu haft áhyggjur af henni og í hvaða farveg heilsa hennar stefndi og þegar Karen tjáði þeim að nú væri komið nóg af vanlíðan þá keyptu þau handa henni skíðavél til þess að nota heima.
  3. Í ein tvö ár notaði Karen skíðavélina heima 1-2x á dag. Hún gat ekki hugsað sér að fara í ræktina og láta fólk sjá sig "svona útlítandi".
  4. Eftir ca. 2 ár hafði hún lést það mikið að hún dreif sig í heilsuræktina og stuttu síðar kynntist hún Ragnhildi Þórðardóttur (Ragga Nagli), einkaþjálfara sem er M.Sc. í heilsusálfræði og undirritaður þekkir af góðu einu.
  5. Karen notaði aldrei örvandi efni til þess að stytta sér leið. Hún notaði aldrei stera til að byggja sig upp. Hún notaði aldrei Metasys eða annað slíkt.
  6. Hún borðaði reglulega (ca. 2-3ja tíma fresti), borðaði alltaf morgunmat og varð aldrei svöng.
  7. Eins og hjá flestum gekk þetta ekki eins og í lygasögu; upp komu erfiðir og mjög erfiðir tímar þar sem hún vildi helst gefast upp og hætta þessu.
  8. Hún gerðir sér fulla grein fyrir því að þetta tæki langan tíma og vissi að ef þyngdin færi hægt af (ca. 0,5-1 kg/viku) þá væri mjög líklegt að hún kæmi aldrei á aftur.
  9. Karen náði þessum árangri með þrjósku og einbeitinguna að vopni; hún gafst aldrei upp!

Þrír þættir hafa vegið þyngst í hreint mögnuðum árangri Karenar:

  1. Mamma hennar sem var hennar stoð og stytta (stuðningsnetið)
  2. Þrjóska og einbeiting hennar sjálfrar (það gerir þetta enginn fyrir mann)
  3. Skíðagönguvélin góða sem nú hefur skipt um eigendur Grin (allt hefur áhrif)

Látum nú þessa frábæru fyrirmynd vera akkúrat það! Karen Anna er dæmi um að allt er hægt ef viljinn er til staðar þegar kemur að því að lýsa yfir stríði gegn offitupúkanum. Hættum að stytta okkur leið með ofneyslu á alls kyns vitleysu eins og próteinsjeikum, CLA, L-karnitíni, efedríni, sterum, kókosolíu hitt og þetta, lífrænu hitt og þetta, Metasys ruglinu, koffíntöflum og öðrum slíkum brennslubulltöflum, 600 kcal kúrnum, 800 kcal kúrnum.............1200 kcal kúrnum, safakúrnum, detox-blaðrinu, hreinsi hitt og þetta kúrnum og förum að borða venjulegan mat þar sem áhersla er lögð á réttar skammtastærðir og rétt máltíðarmynstur.

Það er akkúrat enginn afsláttur í árangri og það á sérstaklega við þegar kemur að því að ná tökum á þyngdinni --> við styttum okkur ekki leið að takmarkinu!

Á eftirfarandi myndum eru orð óþörf!

Karen Anna 1 Karen Anna 2

Karen Anna 4            Karen Anna 3

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband