Kaffidrykkja íslenskra barna er staðreynd!
19.7.2011 | 00:58
Ég vissi að ég myndi fanga athygli þína með ofangreindum titli en hann er ekki alveg rökréttur, eða hvað? Á Íslandi tíðkast það sem betur fer ekki að börn og unglingar séu sötrandi kaffi. Hvers vegna er það gott að börn og unglingar drekki ekki kaffi? Í kaffinu eru ýmis efni sem við viljum ekki að börnin okkar fái og ber þar helst að nefna örvandi og ávanabindandi efnið koffín.
Kaffi- og gosdrykkja á Íslandi er býsna algeng og súkkulaðiát með mesta móti. Í nánast öllu dökku gosi og súkkulaði er koffín. Því myndi margur spyrja hvort viðbót af koffíni sé einhver skaðvaldur? Svarið við þeirri spurningu er einfalt já og á engan hátt ásættanlegt að við gerum illt verra og bætum enn frekar við koffínneysluna hjá íslenskum börnum og unglingum. Undirritaður skrifaði grein í Morgunblaðið um koffín fyrir nokkrum árum en nú er svo komið að þörf er á að fjalla aftur um koffín því neysla barna og unglinga á orkudrykkjum, stútfullum af koffíni, hefur aldrei verið meiri.
Áður en lengra er haldið er mikilvægt að skilgreina hvað orkudrykkir eru og hvað þeir eru ekki, því mikils ruglings gætir meðal foreldra um þetta. Ekki er til formleg skilgreining á orkudrykkjum en þeir eiga það allir sameiginlegt að vera með talsvert miklu magni af koffíni. Þeir eru oftast í 250 eða 500 ml álstaukum en Egils Orka er þó undantekning en hún er seld í plasti. Flestir orkudrykkir eru einnig með viðbættum vítamínum og nokkrir með ginsengi og guarana sem er uppspretta koffíns. Dæmi um orkudrykki eru Red Bull, Euroshopper, Burn, Cult og Orka. Orkudrykkir eru ekki Powerade, Gatorade, Soccerade, Leppin ofl. slíkir drykkir í 500 ml plastflöskum, oft í aðlaðandi litum. Þessir drykkir kallast kolvetna- eða íþróttadrykkir og eru ætlaðir til notkunar í íþróttum þar sem svitatap er töluvert. Orkudrykkir eru heldur ekki mjólkur-/próteindrykkir, t.d. Hámark, sem gott getur verið að neyta strax eftir erfiða æfingu eða í einstaka skipti sem millimál. Orkudrykkir eru heldur ekki gosdrykkir þó svo að magn koffíns sé oft ansi hátt í gosdrykkjum. Orkudrykkir eru ýmist sykurlausir (með sætuefnum) eða stútfullir af sykri.
Um koffín
Koffín er efni sem viðurkennt er til matarframleiðslu. Oft er það sett í matvæli sem bragðefni en einnig eru dæmi um að koffín sé sett í matvöru vegna virkni efnisins á líkamann og eru orkudrykkir gott dæmi um slíkt. Mörg mismunandi sjónarhorn koma iðulega fram þegar talið berst að koffíni. Jack James var í viðtali í Fréttablaðinu 20. nóv. 2010 þar sem hann reifar skaðsemi/skaðleysi koffíns. Hann bendir réttilega á að það sé vitað að koffín hækki blóðþrýsting, það getur haft áhrif á virkni ýmissa lyfja og að það geti haft, þegar þess er neytt í of miklu magni, neikvæð áhrif á fóstur. En það er fleira sem benda má á varðandi koffínneyslu. Neysla og ofneysla koffíns getur valdið höfuðverk, svima, kvíða, einbeitingaleysi, auknu þvaglosi, óþægindum í meltingarvegi, breytingum á hegðun og ógleði. Í einhverjum tilfella hafa menn ráðlagt fólki frá því að neyta koffíns og áfengis saman en mögulegt er að slíkt geti leitt til alvarlegra hjartsláttartruflana.
En af hverju er orkudrykkja þá neytt ef áhrifin af koffíni eru svona slæm? Það er vegna örvandi áhrifa koffíns en efnið hefur örvandi áhrif á miðtaugakerfið og eru sterkustu rökin fyrir áhrifum koffíns á líkamann bundin við þennan þátt. Þegar fólk neytir koffíns, t.d. með drykkju orkudrykkja, þá hressist það. En þessi áhrif eru skammvinn og oft er fólk þreyttara þegar áhrif koffíns dvína en áður en koffíns var neytt. Ávinningur neyslunnar er því í raun enginn.
Er þá einhver ástæða til þess að gefa börnum okkar og unglingum orkudrykki? Nei alls ekki og hafa ber í huga að áhrif koffíns á líkamann eru á hvert kg. líkamsþyngdar og því eru áhrifin mun meiri á smáa líkama en stóra. Auk þess eru orkudrykkir oftast nær fullir af sykri og ekki er á bætandi í sykurneyslu barna og unglinga á Íslandi.
Gaman er að nefna að ef neyslumynstur barna og unglinga á gosdrykkjum myndi breytast og í stað hefðbundinna gosdrykkja myndu þau t.d. drekka Klettakók þá gæti maður fært rök fyrir því að sykurneysla þessa hóps yrði helminguð! Hér er gert ráð fyrir því að börn og unglingar þyrftu" ennþá að drekka gos en best væri að sleppa því. En hvernig má þetta vera? Með því að skipta um tegund þá er sykurneyslan helminguð? Í kóki frá Klettagosi er meira en helmingi minna af sykri en í öðru slíku gosi frá hinum framleiðendunum. Það munar um minna þegar allir þessir þúsundir lítra renna, ár hvert, ofan í börnin okkar og unglinga!
Af hverju leyfum við börnum okkar að drekka ígildi kaffis? Tja, og reyndar rúmlega ígildi því hefðbundinn orkudrykkur inniheldur oft meira magn koffíns en hefðbundinn kaffibolli auk þess sem flestir orkudrykkir innihalda líka mikinn sykur og óþarfa magn af vítamínum og öðrum örvandi efnum.
Sýnum ábyrgð og fylgjumst með börnunum okkar! Við endurtökum ekki uppeldi þeirra!
Athugasemdir
Heyr!!!
Það er litlu við þinn góða pistil að bæta.
Þó er verður að benda á að "venjulegir" gosdrykkir eru einnig alvarlegir og enn lúmskari skaðvaldar en "orku-"drykkirnir og íblöndun fíkniefnis í þá gerir illt verra. Þeir eru ekki allir brúnir sem innihalda örvandi efni, t.d. Mountain-Dew. Þetta átta foreldrar sig iðullega ekki á.
Offitufaraldurinn er jafn slæmur og raun ber vitni að hluta vegna gosdrykkjaofneyslu. Krakkar eru ginntir til að kaupa taugavirkt gos í stærðar flöskum og maula kolvetnaflögur með. (Pepsi og Dorritos auglýsingar t.d.)
Þeir sitja við neyslu örvandi efna og kolvetnaofneyslu fram eftir nóttu hreyfingarlaus við tölvuna og líkaminn breytir sterkjunni og sykrinum í hagkvæmasta orkuforðann, fitu. Svo eru allir hissa á að þau sofni ekki og séu þreytt, með höfuðverk, athyglisbrest og gangi illa í skóla. Það áttar sig varla nokkur maður á að aumingja krakkarnir eru í slæu fráhvarfi, allt niður í leikskólabörn.
Fullorðið fólk er margt í verulegum fíknivanda af þessum drykkjum. Þá oftast svokallaðir sykurlausir drykkir.
Mjög athyglisverð uppgötvun sem við gerðum við offituklínikina í Osló þar sem kom í ljós í neyslukönnun meðal fimbulfeitra að mjög margir þeirra eru háðir sykurlausum koffíndrykkjum, sér í lagi Pepsi-Max. Við höfum einnig séð Pepsi-Max misnotkun rústa árangri hjá fólki sem farið hefur í magahjáveituaðgerð.
Okkur sem vinum með offitusjúklingum daglega grunar að sætuefnin valdi verulega aukinni lyst og hugsanlega á koffínið þar hlut að máli. Það heldur að það sé að gera sér gott með því að velja "sykurlaust" en áttar sig ekki á því að það veldur verulegri kolvetnaþörf og heildar orkuneyslan eykst.
Það er löngu kominn tími á alvarlega umræðu um vandann með örvandi efni í drykkjum. Bann við íblöndun taugavirkra efna í gosdrykki væri auðvitað til mikilla bóta en vald og réttindi "markaðarins" eru gífurleg og foreldrafræðsla í leik- og grunnskólum kannski eina raunhæfa leiðin. Það þarf að kenna foreldrum smábarna þetta og gera það verulega ófínt að ógna heilsu barnanna með slíku góðgæti.
Það þarf að takmarka mátt markaðsaflanna, t.d. með því að banna auglýsingar á drykkjum sem innihalda taugavirk efni eða eitthvað í þeim dúr.
Áður fyrr voru gosdrykkir í litlum flöskum, nú þarf helst að kaupa fjórar tveggja lítra flöskur í kippu til þess að eiga von á að vinna eitthvað dót. Takmörk á einingastærðum væri hugsanlega framkvæmanlegt.
Til þess að koma í kring einhverjum úrbótum þarf samt fyrst af öllu að koma fólki og ráðamönnum til vitundar um vandann og hvað hann kostar samfélagið.
Björn Geir Leifsson (IP-tala skráð) 19.7.2011 kl. 11:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.