Af hverju ætti ekki að D-vítamínbæta léttmjólk?
5.4.2012 | 20:40
Samkvæmt niðurstöðum landskönnunar á mataræði er ljóst að Íslendingar eru ekki að ná sér í hæfilega mikið magn af D-vítamíni. Til þess er neysla á feitum fiski og annarri D-vítamínríkri fæðu of lítil. Auk þess er okkar ástkæra land staðsett svo norðarlega á hnattkringlunni að við njótum sólargeisla einungis stuttan tíma á hverju ári. Það er aðeins yfir hásumarið sem við getum reiknað með að líkaminn búi til D-vítamín í einhverju magni fyrir tilstuðlan sólageislanna ylhýru.
Embætti landlæknis hefur bent á að bæta þurfi aðgengi Íslendinga að D-vítamínríkri fæðu og er einn þátturinn í því að þjóðin borði meira af fiski. Laufey Steingrímsdóttir næringarfræðingur, sem hefur verið einn ötulasti baráttumaður fyrir aukinni neyslu Íslendinga á þessu mikilvæga vítamíni, hefur oftar en einu sinni viðrað þá hugmynd að hækka þurfi ráðlagðan dagskammt (RDS) fyrir D-vítamín. Mikil umræða hefur átt sér stað um D-vítamín og skort sem gert hefur vart við sig hjá þjóðinni. Hlutverk D-vítamíns er m.a. að aðstoða líkamann við að vinna kalk úr fæðunni og hefur vítamínið þar með bein jákvæð áhrif á beinheilsu.
Allir eru sammála um að bæta þurfi aðgengi að D-vítamíni en hvort rétt sé að ráðleggja þjóðinni að neyta lýsis daglega, en hafi lýsi ekki verið hreinsað af D-vítamíni er það ríkur D-vítamíngjafi, eða láta aðrar aðferðir duga verður að koma í ljós. Persónulega finnst mér lýsisneysla vera mjög góð leið til að ná í D-vítamín í ákjósanlegu magni en auk þess eru í lýsi töluvert magn af omega-3 fitusýrum en þær eru taldar geta haft jákvæð áhrif á tíðni hjarta- og æðasjúkdóma sé þeirra neytt í skynsamlegu magni.
En hvernig er hægt að ná til þjóðarinnar allrar? Er það yfir höfuð hægt? Getum við bætt D-vítamínbúskap þjóðarinnar og lagt þannig grunninn að því að engin börn eða fullorðnir á Íslandi séu með beinkröm eða beinþynningu? Því er erfitt að svara en þær leiðir sem nú er verið að fara eru, að mínu mati, algerlega rangar og óásættanlegar þegar kemur að því að bæta D-vítamínheilsu Íslendinga.
Fljótlega eftir að umfjöllun komst í hámæli um bágan D-vítamínbúskap Íslendinga fóru að sjást heilsíðu auglýsingar í blöðum og auglýsingar í sjónvarpi um hinar og þessar vörur sem væru annaðhvort stútfullar af D-vítamíni eða því hefði verið bætt við matvæli sem til staðar voru á markaði. Eitt þessara dæma er D-vítamínbætt léttmjólk. Mikilvægt er að taka fram að fyrirtækið sem framleiðir vöruna er ekki að gera neitt rangt með því að D-vítamínbæta léttmjólk enda hefur fyrirtækið og aðilar sem hvað mestan áhuga hafa á því að bæta D-vítamínbúskap landsmanna átt í viðræðum hvernig best sé að koma meira magni af vítamíninu til þjóðarinnar. Það sem ég hef þó áhyggjur af er hvernig þetta er gert, þ.e.a.s. að bæta D-vítamíni í stök matvæli sem mjög fáir neyta þegar ef mark er takandi á neyslutölum á mjólk í niðurstöðum á landskönnun á mataræði.
Hver er tilgangurinn með því að D-vítamínbæta léttmjólk? Þrátt fyrir betrumbætta léttmjólk eru eftir sem áður afar fáir sem ná í æskilegt magn D-vítamíns og má til sanns vegar færa að léttmjólkin breyti engu þegar kemur að D-vítamínheilsu þjóðarinnar (heildar neysla allrar drykkjarmjólkur er einungis rúmlega einn skammtur á dag skv. niðurstöðum landskönnunnar). Markaðssetning D-vítamínbættrar léttmjólkur er fyrst og fremst til þess að selja meira af þessari vörutegund fyrirtækinu til hagsbóta.
Mínus í kladdann frá mér fá þó íslensk stjórnvöld. Þau fá mínusinn vegna þess að enn og aftur ætlast þau til að við, neytendurnir sjálfir, sjáum um alla upplýsingaöflun og allar aðgerðir til þess að bæta heilsu okkar. En þeir sem þekkja til vita að mikill skortur er á upplýsingastreymi til íslenskra neytenda um þessi mál. Þar af leiðandi erum við að fá upplýsingarnar og kennsluna frá markaðsaðilum og slíkt kann ekki góðri lukku að stýra.
Af hverju taka stjórnvöld ekki af skarið og bæta D-vítamíni í matvæli eða hráefni sem fleiri og e.t.v. mikill meirihluti Íslendinga myndi neyta? Af hverju leyfa stjórnvöld markaðsöflum að stjórna neyslu okkar á D-vítamíni, vítamíni sem mikill skortur er á á meðal meirihluta landsmanna? Af hverju leyfa stjórnvöld markaðsöflum að markaðssetja skort Íslendinga á D-vítamíni? Svo því sé haldið til haga þá hefur verð á D-vítamínbættri léttmjólk verið a.m.k. 20 krónum hærra en af venjulegri léttmjólk frá því að sú D-vítamínbætta kom á markað fyrir nokkrum mánuðum.
D-vítamínbætt léttmjólk sem er dýrari en venjuleg léttmjólk: það gefur auga leið að þessi nálgun mun ekki skila sér í bættri D-vítamínheilsu Íslendinga!
Ég tel að Íslendingar eigi rétt á því að stjórnvöld komi með heildstæðar lausnir þegar kemur að D-vítamínheilsu landsmanna. Ekki gera ekki neitt segir einhvers staðar. Stjórnvöld þurfa að taka þetta til sín.
Það er í hlutverki stjórnvalda að finna leiðirnar en t.d. má skoða að D-vítamínbæta hveiti, leggja meiri áherslu á neyslu á D-vítamínríku lýsi, D-vítamínbæta gosdrykki og fleiri leiðir sem sjá má færar ef horft er út fyrir boxið.
Athugasemdir
Velti fyrir mér hvort þetta tvennt stangast ekki örlítið á hjá greinarhöfundi. Fyrst segir í greininni um D-vítamínbætta léttmjólk. ,,Það sem ég hef þó áhyggjur af er hvernig þetta er gert, þ.e.a.s. að bæta D-vítamíni í stök matvæli sem mjög fáir neyta þegar ef mark er takandi á neyslutölum á mjólk í niðurstöðum á landskönnun á mataræði."
Í lokaorðum kemur svo fram hvatning um að önnur stök matvæli frá einstökum framleiðendum verð D-vítamín bætt.
" t.d. má skoða að D-vítamínbæta hveiti, leggja meiri áherslu á neyslu á D-vítamínríku lýsi, D-vítamínbæta gosdrykki."
Svanfríður Anna Lárusdóttir (IP-tala skráð) 7.4.2012 kl. 16:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.