Fyrsti bitinn er með augunum!

Skammtastærðir og „skammtastærðaskæling" - hvað er nú það?

Skammtastærðaskælingu má einnig kalla afmyndun, afskræmingu eða afbökun á grunnhugmyndum um skammtastærðir matvæla. Skammtastærðaskælingu tel ég vera eina af allra stærstu ástæðum þess að vestrænar þjóðir glíma við offitudrauginn.

Fyrir um 20 árum fóru fituminni og fitulaus matvæli að ryðja sér til rúms í Bandaríkjunum (BNA). Nú er svo komið að úrvalið er óþrjótandi af hinu og þessu sem er fitulítið, fitulaust, kolvetnalítið, kolvetnalaust, próteinmikið, próteinlítið, próteinlaust, hitaeiningalítið, hitaeiningalaust osfrv.

Hvernig stendur þá á því að Bandaríkjamenn eru hvað verst staddir af öllum vestrænum þjóðum er kemur að ofþyngd, offitu og almennt að holdafari? Kannski af því að íslenska skyrið er bara rétt núna að ryðja sér til rúms þarna vestanhafs? Já kannski, en stærri ástæður má finna en skyrleysið og eru þær fyrst og fremst að finna í ofneyslu hitaeininga þar í landi.

Til þess að vera í okkar réttri þyngd er mikilvægt að líta til mjög einfaldrar jöfnu. Passa verður upp á að jafnvægi sé á milli þess sem við setjum ofan í okkur og þess sem við eyðum í formi hreyfingar. Ef við borðum meira en við þurfum/eyðum til lengri tíma litið þá fitnum við en ef við borðum ca. það sem við þurfum/eyðum þá höldum við okkur í okkar réttu þyngd.

Ímyndum okkur að við séum stöðuvatn. Í okkur rennur vatn og úr okkur rennur vatn. Svo framarlega sem  við fáum sama magn af vatni í okkur og rennur úr okkur þá stækkum við ekki. Ef vatnið rennur hraðar í okkur en það rennur úr okkur þá flæðum við.

Það sama er með matinn. Ef við borðum meira en við þurfum þá „flæðir" upp úr! Sá matur sem er of mikill og til óþurftar nýtist ekki og hann „flæðir" inn í geymslu í líkamanum okkar (við fitnum). Því miður er eini geymslustaðurinn sem eitthvað getur geymt af „mat" staðsettur í fitufrumum líkamans. Því er það svo að allur matur sem við nýtum ekki getur geymst eingöngu á formi fitu. Þegar fólk neytir matar til lengri tíma umfram það sem þörf segir til um þá fitnar fólk! Svo einfalt er það!

En hér ber að minnast á að matur ER NAUÐSYN og ekki til neins gagns að borða miklu minna en maður þarf. Helst má borða minna þegar maður vill grenna sig og léttast en þá er aðal reglan að minnka skammtana lítið eitt en halda eðlilegu máltíðarmynstri og helst að verða aldrei verulega svangur/svöng. Þetta reynist flestum verulega erfitt því það er innbrennt í huga svo margra að grenning sé kvöl og pína þar sem maður fái ekkert að borða og sé alltaf svangur. En þar liggur einmitt vandi svo margra Íslendinga - að hafa trúað sjálfmenntuðum ofstækissölumönnum sem vilja allt fyrir þig gera svo framarlega sem að þú kaupir vöruna þeirra, tækið þeirra, þjónustuna þeirra, 1000 hitaeininga kúrinn þeirra, "frábæru" brennslutöflurnar, hágæða próteinið osfrv.

En hvernig má það vera að Bandaríkjamenn hafi fitnað svona mikið sl. 40 ár eða svo þrátt fyrir ótrúlegt úrval af hitaeiningasnauðum, fitulitlum og fitulausum matvælum? Auðveldast er að sýna myndir.

Hammari fyrr og nú

Pitsa fyrr og nú

Kók fyrr og nú

En hvernig er hægt að vinna gegn þessari framþróun? Stóru diskarnir og þetta mikla magn af mat er „komið" til Íslands og er ójafnvægið algert hjá alltof stórum hluta þjóðarinnar í því sem fólk neytir og því sem fólk brennir í formi hreyfingar. Munum að fyrsti bitinn er alltaf með augunum og það eru augun sem hafa mikið um það að segja hvort við verðum södd eða ekki. Ef við setjum 200 gr. af mat á stóran disk þá teljum við okkur trú um að það dugi ekki því þetta sé svo lítið (mikið sést í diskinn). Ef við setjum svo sömu 200 gr. á lítinn disk þá er líklegra að við trúum að það dugi (lítið sést í diskinn) - augun hjálpa!

Stór og lítill diskur

Hvernig veit maður hvort skammtastærðir hafi verið hæfilegar eða ekki? Ýmsar kenningar, getgátur og leiðir hafa verið nefndar og oftar en ekki eru vitlausustu hugmyndirnar sem fólk tekur ástfóstri við. Einfaldasta ráðið til þess að gera sér grein fyrir því hvort skammtastærðir til lengri tíma litið eru „réttar" er að athuga hvort fötin manns hafi þrengst en helst ekki stíga á vigtina því hún er hinn mesti lygalaupur. Til dæmis er gott að spyrja „Hvernig er buxnastrengurinn núna sbr. í fyrra?"

Ef það er orðið erfiðara að fara í fötin þá eru skammtarnir of stórir fyrir þig og annað hvort þarft þú að minnka skammtana (þó ekki hætta að borða) eða hreyfa þig meira, nú eða hvortveggja. Svo einfalt er það!

Líklegt er að við setjum of mikið af mat á stóran disk. Staðreyndin er sú að við klárum að meðaltali 92% af því sem við skömmtum okkur hvort sem um ræðir stóran eða lítinn disk. Því MUN stærri diskur þýða að meira af mat er neytt.

Minni diskur, frá 12 tommum niður í 10 tommur, þýðir 22% færri hitaeiningar en það er þó ekki það mikið minna haf hitaeiningum að líkaminn skynji það sem eitthvert svelti. Ef við myndum aftur á móti breyta einni máltíð, t.d. kvöldmat sem er oft í kringum 800 he., þá myndi þessi diskabreyting þó þýða að líkamsþyngdin gæti minnkað um rúmlega 8 kg á einu ári. Það munar um minna þegar fólk berst við offitudrauginn!

Vissir þú að á ferhyrndan disk kemst talsvert meira af mat en á hringlaga disk! Af hverju? Jú við hornlaga diskinn bætast einmitt hornin við sambærilega stærð í hringlaga diski en á þessi horn má auðveldlega „fylla" af mat! Notum því ferhyrnda diska sjaldan.

Hjá fyrirtækinu Matís (www.matis.is) og fleiri fyrirtækjum er komin s.k. „Small Plate Movement" (á íslensku mætti kalla þetta „Minni diska hreyfing"). Minni diska hreyfing snýst um að bjóða upp á smærri diska í máltíðum fyrirtækja og eins á heimilum fólks. Þannig sparast umtalsverðar fjárhæðir í innkaupum en auk þess, sem er jú ekki síður mikilvægt, þá neytir fólk ekki hitaeininga sem það hefur ekkert við að gera. Gleymum því ekki að tilhneiging okkar Íslendinga hefur verið að stækka diskana en sem dæmi þá hefur diskastærð í BNA stækkað að meðaltali úr 10 tommum í 12 tommur á sl. ca. 40 árum.

Hver er þáttur stærri diska í stórkostlegri þyngdaraukningu Bandaríkjamanna? Hver er þáttur stærri diska í verulegri þyngdaraukningu Íslendinga?

Skammirnar fá.......
Að lokum langar mig til þess að minnast á viðtöl/greinar í Fréttatímanum (fyrst í Fréttatímanum 10. júní; tvær greinar og nú 8. júlí) þar sem enn er verið að gera úr því skóna að það sé í lagi að vera svona og hinsegin í laginu af því að við erum öll svo ólík. Nánast er sagt að ef við leyfum fólki ekki að vaxa og dafna eins og þau vilja helst þá erum við, þau sem höfum áhyggjur af holdafari íslensku þjóðarinnar, með fordóma á hæsta stigi gagnvart „feitum" !

Það er í meira lagi sorglegt að fræðimenn skuli láta svona út úr sér því það sér hver sem vill að umræðan er ekki á þessum nótum. Það þarf stöðugt að minna þessa sömu á að þetta snýst um heilbrigði og lífsgildi þessa fólk sem e.t.v. er komið í veruleg offituvandamál fyrir 25. aldursár. Þetta snýst ekki um hvort einstaklingurinn sé perulaga eða eplalaga eða einhvers staðar þar á milli. Þráhyggjan við að fordæma umræðu um offituvanda Íslendinga, sé umræðan ekki á „réttu" nótunum, er kolvitlaus og með slíkum skrifum afla greinahöfundar fylgis á algerlega röngum forsendum - taktík sem minnir helst á marga stjórnmálamennina korter í kosningar.

Því er nauðsynlegt að endurtaka á skýran hátt eftirfarandi: umræðan sem loksins er farin af stað í okkar þjóðfélagi er ekki um lögun einstaklinga né útlit í heild sinn heldur snýst umræðan um hættulega offitu og afleiðingar hennar fyrir þá sem fyrir henni verða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband