Er hugarfarið að breytast?

Níu af síðastiðnum tíu árum hef ég komið í sumarbústaðabyggðina í Brekkuskógi, rétt austan við Laugarvatn. Ég hef verið hér á hinum ýmsu tímum yfir sumarmánuðina en oftar en ekki í byrjun ágúst. Ég hef alltaf hlaupið eitthvað en hlaupin hafa orðið sífellt stærri hluti af mínum lífsstíl sl. þrjú ár. Í hvert sinn sem ég dvel í sumarbústað í Brekkuskógi þá hef ég ávalt farið eitthvað út að hlaupa og mest sl. ár eða svo. Ber nú svo við að ég hef aldrei á þessum tíma séð eins marga hreyfa sig markvisst á þessum stað eins og nú. Ég hef rekist á hið minnsta fimm hlaupara þegar ég hef farið út sjálfur og mest sl. sunnudag  þegar ég sá eina átta einstaklinga hlaupa/skokka um sumarbústaðabyggðina. Kannski er þetta vegna þess að það styttist í Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka og fjöldi þátttakenda eykst frá ári til árs? Kannski er ástæðan sú að veðrið þessa vikuna er búið að vera með besta móti og ekkert ánægjulegra en að fara út að hreyfa sig þegar gott er veður? Kannski er þetta breyttur hugsunarháttur hjá fólki og heilbrigður lífsstíll allt árið um kring?

Ég vil trúa að breytingar hafi átt sér stað, og hlutirnir séu enn að breytast, a.m.k. hjá ákveðnum hópum í hinu íslenska samfélagi. Breyting sem snýr að heilbrigðari lífsstíl og neyslu matar í góðu jafnvægi við orkueyðslu líkamans; líka í sumarfríum!

Það er að sjálfsögðu af hinu góða að við sleppum fram af okkur beislinu annað slagið í mat og drykk. Á meðan grunnurinn í lífsstílnum er hollt og gott mataræði í góðu jafnvægi á móti hreyfingu þá er flestum óhætt að sleppa fram af sér beislinu annað slagið.

Við þekkjum það að í sumarbústaðaferðum er algengt að mikið sé í boði af mat og drykk. Engin ástæða er til að missa algerlega stjórn á sér og gefa t.d. börnum óhollustu frá morgni til kvölds. Einnig má halda úti lágmarks hreyfingarmynstri á þessum tíma. Fara út að ganga, skokka, ganga á fjöll, fara í sund ofl.  Þetta virðast æ fleiri vera farnir að skilja.

Ef við höldum hreyfingarmynstri inni í þá daga sem mataræði er „á gráu svæði" þá erum við svo miklu betur stödd en ef við hreyfðum okkur ekki neitt á þessum tíma.

Margir brenna 75-150 hitaeiningum á hverjum km sem þeir hlaupa/skokka. Nokkru minna er brennt ef gengið er rösklega. Ef við göngum/skokkum/hlaupum 5-8 km þá erum við búin að gefa okkur mun betra tækifæri til að „hafa efni á" grilluðu nautasteikinni eða ostborgurunum sem verða í boði eitthvert kvöldið. Engin ástæða er heldur til að gleyma börnunum okkar. Á þeim fimm dögum sem ég hef nú eytt í sumarbústaðnum þetta árið eruð börnin mín, 11 og 14 ára, búin að fara út að skokka með mér tvisvar sinnum. Ég get sagt það með sanni að það er ekki alltaf auðvelt að fá þau til að skilja nauðsyn hreyfingar þessa „sumarbústaða allsherjar afslöppunarviku"!

Hlaup_krakkarnir

Höldum jafnvægi á neyslu hitaeininga og þeirra hitaeininga sem við eyðum á formi hreyfingar. Við gerum það með því að halda neyslu matar og magni af hreyfingu í góðu jafnvægi.
 
Eins og góður maður sagði eitt sinn og leyfi ég mér að sletta hér lítið eitt:

Not everything that is good for you always feels good for you (Lance Armstrong)

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband